Atvinnuleit á Íslandi

Atvinnuleit á Íslandi
Hér má finna upplýsingar um atvinnuleit á Íslandi og hvernig er hægt að fá atvinnuleysisbætur frá heimalandi í þrjá mánuði á meðan leitað er að starfi.

Sækja um starf á Íslandi

Atvinnulausir einstaklingar frá Norðurlöndum sem koma til Íslands í vinnuleit þurfa að fá íslenska kennitölu hjá Þjóðskrá Íslands til þess að geta skráð sig í atvinnuleit á næstu vinnumiðlun Vinnumálastofnunar. Heimilisföng vinnumiðlana má finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Auk þess að miðla störfum, veita vinnumiðlanir Vinnumálastofnunar upplýsingar um atvinnuástand og horfur og endurgjaldslausa ráðgjöf um náms- og starfsval og atvinnuleit. Einnig er mögulegt að skrá sig hjá einkareknum atvinnumiðlunum eða hafa beint samband við atvinnurekendur. Eins má oft finna atvinnuauglýsingar í helstu dagblöðum og á netsíðum dagblaðanna.

Heimasíður helstu vinnumiðlana á Íslandi eru eftirfarandi, en listinn er þó ekki tæmandi.

Sækja um vinnu í gegnum EURES

Vinnumálastofnun sér um rekstur samevrópsku vinnumiðluninnar EURES (EURopean Employment Services). EURES er samstarf um atvinnuleit og miðlun starfa milli ríkja Evrópska Efnahagssvæðisins (EES) og er rekin á vegum framkæmdastjórnar EES.

Markmið EURES er að auðvelda vinnandi fólki að flytjast milli landa EES-svæðisins og stuðla þannig að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar innan svæðisins.

EURES-ráðgjafar leiðbeina fólki um atvinnuleit erlendis, veita upplýsingar um starfs- og búsetuskilyrði innan svæðisins auk þess að aðstoða atvinnurekendur sem vilja ráða til sín starfsmenn frá öðrum EES-ríkum.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu EURES, en þar er að finna mikið af upplýsingum fyrir þá sem eru í atvinnuleit og hyggja á flutning innan Evrópu.

Nordjobb

Norrænir ríkisborgarar eða ríkisborgarar í Evrópusambandinu sem eru búsettir á Norðurlöndum og eru á aldrinum 18 – 30 ára geta sótt um Nordjobb. Nordjobb stuðlar að auknum hreyfanlega fyrir ungt fólk innan Norðurlanda og miðlar atvinnu og húsnæði á Norðurlöndum.

Að leita að starfi á Íslandi á atvinnuleysisbótum frá heimalandinu

Öll Norðurlöndin eiga aðild að EES-samningnum sem þýðir að einstaklingur getur farið til annars norræns lands í allt að þrjá mánuði í atvinnuleit og samt haldið rétti sínum til atvinnuleysisbóta frá heimalandinu. Uppfylla þarf skilyrði þess lands sem greiðir atvinnuleysisbæturnar (sjá krækjur hér að neðan).

Til þess að fá dagpeninga við atvinnuleit á Íslandi skal viðkomandi hafa vottorð PD U2 (N-303 ef flutt er frá Færeyjum eða Grænlandi) frá því stjórnvaldi sem greiðir bæturnar.

Þegar einstaklingur kemur til Íslands skal hann skrá sig hjá Vinnumálastofnun. Erlend stofnun sem sér um atvinnuleysisbætur mun áfram greiða bæturnar

Hafið samband við stjórnvöld í heimalandi tímalega

Hafa skal samband við það stjórnvald sem greiðir út atvinnuleysisbætur tímanlega, áður en farið er af stað, til þess að fá upplýsingar um sérstök skilyrði, tímafresti og mögulega bið á málsmeðferð.

 

Ef viðkomandi finnur ekki vinnu

Að þremur mánuðum liðnum eru ekki lengur greiddar bætur frá heimalandinu og verður að snúa þangað aftur til að halda rétti til bóta. Nauðsynlegt er að snúa aftur til heimalandsins og skrá sig hjá vinnumiðlun þar áður en vottorðstíminn rennur út. Ekki má líða lengri tími milli komu og skráningar en sjö dagar. Tímabilið sem mögulegt er að fá atvinnuleysisbætur í landinu þar sem leitað að atvinnu er ekki hægt að framlengja. Gæta þarf þess þegar snúið er aftur til heimalandsins að afskrá sig frá vinnumiðluninni í norræna landinu.

Frekari upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá Vinnumálastofnun, á heimasíðu þeirra eða í síma +354 5154800

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna