Dagpeningar í fæðingarorlofi á Grænlandi

Mother with baby in Nuuk
Photographer
Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Hér er að finna upplýsingar um grænlenskar reglur um orlof og dagpeninga í tengslum við barnsfæðingu eða ættleiðingu.

Reglurnar um dagpeninga gilda bæði um fæðingu og ættleiðingu. Nánari upplýsingar um réttindi og reglur varðandi fæðingarorlof eru hér:

Átt þú rétt á dagpeningum í fæðingarorlofi á Grænlandi?

Þegar þú ferð í fæðingarorlof áttu rétt á fjárhagsaðstoð á formi dagpeninga meðan á orlofinu stendur.

Til að eiga rétt á dagpeningum í fæðingarorlofi á Grænlandi þarft þú að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Vera skráð/ur í þjóðskrá á Grænlandi
  • Ekki þiggja laun frá vinnuveitanda þínum á orlofstímanum
  • Hafa unnið í að minnsta kosti eina klukkustund á undanförnum 13 vikum
  • Uppfylla skilyrði sem kveðið er á um í grænlensku fæðingarorlofslögunum

Upphæð greiðslnanna veltur á því hvort þú ert launþegi, atvinnulaus, í námi, sjálfstæður atvinnurekandi eða í sambúð með sjálfstæðum atvinnurekanda.

Dagpeningar í fæðingarorlofi eru greiddir út á 14 daga fresti og eru skattskyldar tekjur.

Launafólk

Þú átt rétt á dagpeningum í fæðingarorlofi ef þú hefur verið á vinnumarkaði síðustu 13 vikurnar fram að fæðingarorlofi þínu. Í því getur falist að þú hafir verið í vinnu, í leyfi, tekið þátt í vinnumarkaðstengdum námskeiðum eða þegið atvinnuleysisbætur.Sért þú opinber starfsmaður getur þú átt rétt á launum í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum. Hafðu samband við stéttarfélag þitt ef þú vilt fá upplýsingar um réttindi þín.

Ef þú ert sjálfstætt starfandi atvinnurekandi

Sért þú eða maki/sambúðarmaki þinn sjálfstæður atvinnurekandi gilda sérstakar reglur um fæðingarorlof.

Ef þú ert sjálfstætt starfandi og vilt frá dagpeninga í fæðingarorlofi þarftu annað hvort að gera hlé á starfsemi þinni á orlofstímabilinu eða fela hana einhverjum öðrum.

Ef þú aðstoðar maka þinn eða sambúðarmaka í sjálfstæðum atvinnurekstri þarftu að gera hlé á þeirri aðstoð á fæðingarorlofstímabilinu.

Stundir þú launaða vinnu meðfram sjálfstæðum atvinnurekstri átt þú rétt á fæðingarorlofi samkvæmt reglunum um launþega og einnig samkvæmt reglunum um sjálfstæða atvinnurekendur.

Ef þú stundar nám

Ef þú átt ekki rétt á námsstyrk (SU), starfsnámsstyrk eða starfsnámslaunum meðan á fæðingarorlofinu stendur áttu rétt á dagpeningum sem nema upphæð námsstyrks, starfsnámsstyrks eða starfsnámslauna, ásamt barnabótum vegna hvers barns sem þú ert með á framfæri.

Ef þú ert á framfæri hins opinbera

Ef þú þiggur námsstyrk (SU), fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera eða örorkubætur áttu ekki rétt á dagpeningum í fæðingarorlofi.

Hvernig sækirðu um fæðingarorlofsgreiðslur?

Viljir þú sækja um dagpeninga í fæðingarorlofi getur þú gert það hjá borgaraþjónustunni Sullissivik. Þú þarft að sækja um í síðasta lagi fimm mánuðum eftir að þú hættir að fá laun, námsstyrk eða aðrar tekjur vegna orlofstöku þinnar.

Þú getur einnig leitað upplýsinga hjá þínu sveitarfélagi, borgaraþjónustumiðstöð eða byggðarlagsskrifstofu.

Ef þú flytur til annars norræns lands áður en taka fæðingarorlofs hefst eða á meðan á því stendur

Eigir þú rétt á grænlenskum fæðingarorlofsdagpeningum við upphaf fæðingarorlofstöku getur þú tekið dagpeningana með þér ef þú flytur til annars norræns lands á orlofstímabilinu.

Flytjir þú til annars norræns lands áður en orlofstímabilið hefst skaltu hafa samband við yfirvöld í því sveitarfélagi sem þú flytur í, til að fullvissa þig um að þú eigir rétt á dagpeningum eða sambærilegum greiðslum í orlofinu.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna