Ellilífeyrir í Danmörku

Dansk alderspension
Hér geturðu lesið um reglur sem gilda um danskan ellilífeyri (folkepension).

Í Danmörku eru ýmsar tegundir lífeyris. Hér að neðan geturðu lesið um danskan ellilífeyri (folkepension). Þú getur lesið um aðrar tegundir dansks lífeyris á vefsíðunni um lífeyriskerfið í Danmörku.

  Áttu rétt á dönskum ellilífeyri?

  Þú átt að öllu jöfnu rétt á dönskum ellilífeyri ef þú býrð eða starfar í Danmörku. Ef þú býrð í Danmörku en starfar í öðru norrænu landi er meginreglan sú að þú ávinnir þér rétt til lífeyris í starfslandinu. Ef þú starfar í tveimur eða fleiri löndum eða ert útsendur starfsmaður í öðru norrænu landi skaltu hafa samband við yfirvöld ef þú ert í vafa um hvar þú ávinnur þér rétt til ellilífeyris. Í Danmörku hefurðu samband við skrifstofu alþjóðlegra almannatrygginga (kontor for international social sikring) hjá Udbetaling Danmark.

  Hvernig ávinnur þú þér rétt til dansks ellilífeyris?

  Lífeyrisréttindi þín í Danmörku miðast við þann tíma sem þú hefur búið í Danmörku frá 15 ára aldri til ellilífeyrisaldurs eða þar til þú öðlast rétt til örorkubóta.

  Þú átt rétt á fullum ellilífeyri ef þú hefur búið í landinu í 40 ár eða lengur á umræddu tímabili. Að öðrum kosti áttu rétt á hluta ellilífeyris, svonefndum hlutalífeyri (brøkpension). Hlutfall lífeyris miðast við búsetutíma þinn í Danmörku á umræddu tímabili.

  Ef einstaklingur hefur verið almannatryggður erlendis um leið og hann bjó í Danmörku dregst umrætt tímabil frá búsetutímanum í Danmörku. Ef umrætt tímabil er skemmra en eitt ár nærð þú ekki að ávinna þér réttindi til dansks lífeyris.

   Hvenær geturðu fengið greiddan danskan ellilífeyri?

   Aldur þinn ræður því hvenær greiðslur ellilífeyris geta hafist. Ellilífeyrisaldurinn hefst nú á tímabilinu 65 til 68 ára.

   Hægt er að fresta töku ellilífeyris. Því lengur sem lífeyristöku er frestað því hærri verða lífeyrisgreiðslurnar.

   Hvernig sækir þú um ellilífeyri?

   Ellilífeyrir greiðist ekki sjálfkrafa. Þú þarft að sækja um ellilífeyri. Þú getur sótt um ellilífeyri hálfu ári áður en þú nærð ellilífeyrisaldri.

   Ef þú býrð í Danmörku

   Ef þú býrð í Danmörku sækirðu um danskan ellilífeyri í Danmörku.

   Þú getur lesið nánar á vefnum borger.dk um hvernig þú sækir um danskan ellilífeyri.

   Ef þú hefur áunnið sér rétt til ellilífeyris í fleiri en einu norrænu landi er meginreglan sú að sótt er um hann í Danmörku. Þú getur lesið nánar á vefnum borger.dk um hvernig þú sækir um og hvaða gögn þurfa að fylgja umsókninni.

   Ef þú býrð í öðru norrænu landi

   Ef þú býrð í öðru norrænu landi en hefur áunnið þér rétt til dansks ellilífeyris er meginreglan sú að þú sækir um ellilífeyrinn í búsetulandinu.

   Aðrar greiðslur

   Ýmsir möguleikar eru á að fá uppbót á danskan ellilífeyri: uppbót á lífeyri (ældrecheck), uppbót vegna hitakostnaðar, uppbót vegna heilsufars og persónulega uppbót. Þú getur lesið nánar um þessar greiðslur á vefnum borger.dk.

   Húsnæðisbætur

   Þú getur átt rétt á húsnæðisbótum. Það fer meðal annars eftir upphæð húsaleigunnar, tekjum þínum, stærð húsnæðisins og hversu margir búa þar. Nánari upplýsingar eru á vefnum borger.dk.

   Geturðu tekið danskan ellilífeyri með þér til annars norræns lands?

   Ef þú ert danskur ríkisborgari eða ríkisborgari í ESB-landi, Noregi, Íslandi, Liechtenstein eða Sviss er meginreglan er sú að þú getir tekið ellilífeyrinn með þér til annars norræns lands. Þú sækir um að taka ellilífeyris með þér úr landi hjá Udbetaling Danmark.

   Þú getur ekki tekið danskan ellilífeyri með þér til Færeyja eða Grænlands. Þess í stað sækirðu um færeyskan eða grænlenskan ellilífeyri.

   Nánari upplýsingar eru á vefnum borger.dk.

   Hvernig er ellilífeyrir greiddur við andlát?

   Ef báðir makar eða sambýlingar eru örorku- eða ellilífeyrisþegar geta lífeyrisgreiðslur hins látna haldið áfram í allt að þrjá mánuði eftir andlát hans. Nefnast þær dánarlífeyrir.

   Eftirlifandi aðstandendur þurfa ekki að aðhafast neitt vegna örorku- eða ellilífeyris. Dönsk þjóðskrá tilkynnir um andlátið til Udbetaling Danmark og viðkomandi sveitarfélags sem taka sjálfvirka ákvörðun um hvernig fer með lífeyrinn. Aðstandendur þurfa þó sjálfir að hafa samband við Udbetaling Danmark ef hinn látni var búsettur erlendis.

   Hvernig geturðu fengið upplýsingar um hvort þú hafir áunnið þér rétt til ellilífeyris í Danmörku?

   Ef spurningar vakna um danskan ellilífeyri geturðu haft samband við Udbetaling Danmark.

   Hvar greiður þú skatt af dönskum ellilífeyri ef þú býrð erlendis?

   Nánari upplýsingar um skattlagningu ellilífeyris á Norðurlöndum er að finna á vefgáttinni Nordisk eTax.

   Hvert geturðu leitað með spurningar?

   Nánari upplýsingar

   Samband við yfirvöld
   Spurning til Info Norden

   Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

   ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

   Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
   Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna