Ökutæki í Svíþjóð

Engar almennar ESB-reglur gilda um skráningu ökutækja en meginreglan er sú að bifreið á að vera skráð í búsetulandi eiganda. Ef einstaklingur býr í Svíþjóð þarf bíll viðkomandi því að vera skráður þar. Ef þú býrð í Svíþjóð og átt bíl sem er skráður þar þarftu einnig að tryggja bílinn þar í landi.
Skráning ökutækis við flutning til Svíþjóðar
Upprunaskoða verður alla bíla og önnur ökutæki sem flutt eru til Svíþjóðar og notuð þar. Sótt er um upprunaskoðun ökutækja hjá umferðarstofu, Transportstyrelsen.
Þegar upprunaskoðun hefur verið framkvæmd og samþykkt skal hafa samband við bifreiðaskoðunina til að fá skráningarskoðun.
Bifreiðaeftirlitið hefur gefið út gátlista um allt ferlið við innflutning á bifreiða. Þar eru útskýringar á því hvað gera skal og í hvaða röð, frá því að komið er með bíl að sænsku landamærunum og þar til nota má bílinn í Svíþjóð. Þar eru einnig gefnar upplýsingar um tolla, skatta, tryggingar, upprunaskoðun, skoðun og skráningarnúmer.
Tollur og skattar við innflutning bíls til Svíþjóðar
Þegar bíll eða annað ökutæki er flutt inn frá öðru ESB-landi, svo sem Danmörku eða Finnlandi, þarf ekki að greiða toll. Hafðu þó samband við skattayfirvöld (Skatteverket) til að fá frekari upplýsingar um skatta og virðisaukaskatt.
Þegar bíll eða annað ökutæki er flutt inn frá landi utan ESB, til dæmis meðal Íslandi eða Noregi, þarf að greiða toll og virðisaukaskatt. Hafðu samband við sænsk tollyfirvöld (Tullverket) til að fá upplýsingar um hvað þú þarft að gera. Einstaklingar sem flytja með sér bíl eða annað ökutæki frá Íslandi eða Noregi þegar þeir flytja til Svíþjóðar geta sótt um undanþágu frá tollum. Undanþágan fer meðal annars eftir því hvort verið er að flytja til Svíþjóðar í fyrsta sinn, hvort verið er að flytja aftur til Svíþjóðar og hve lengi viðkomandi hefur átt ökutækið.
Kaupa bifreiðatryggingu í Svíþjóð
Allir bílar og önnur ökutæki eiga að vera ábyrgðartryggð í Svíþjóð.
Frekari upplýsingar um bifreiðatryggingar, hvenær tryggja skal og hvað gerist ef bifreið er ótryggð fást á vef bifreiðaeftirlitsins (Transportstyrelsen).
Sænskar umferðarreglur
Þegar þú ekur bíl í Svíþjóð þarftu að fylgja sænskum umferðarreglum, hraðatakmörkunum og reglum um veggjöld og notkun sumar- og vetrardekkja. Nánari upplýsingar um þær reglur sem gilda í Svíþjóð er að finna á eftirfarandi tenglum.
Akstur erlendrar bifreiðar í Svíþjóð
Ef þú flytur til Svíþjóðar til að hafa þar fasta búsetu og flytur bíl með þér máttu aka honum í allt að sjö daga frá innflutningsdegi ef hann er með gilda skráningu í erlendu ríki og gilda erlenda bifreiðatryggingu. Þú þarft að hafa erlenda skráningarvottorðið meðferðis þegar þú ekur bílnum. Þá þarftu að kaupa sænska bifreiðatryggingu innan viku.
Ef þú flytur tímabundið til Svíþjóð án þess að breyta lögheimili þínu þarftu ekki að skrá bílinn þinn í Svíþjóð. Bíllinn getur haldið skráningu sinni í heimalandi þínu. Ef þú dvelur tímabundið í Svíþjóð, til dæmis vegna tímabundinnar vinnu, máttu mest aka bíl sem skráður er í heimalandi þínu í eitt ár.
Ef lögreglan stöðvar þig á meðan þú dvelur tímabundið í Svíþjóð þarftu að geta sýnt fram á að þú hafir búir ekki í landinu til frambúðar. Það getur verið erfitt að sýna fram á slíkt og því skaltu alltaf hafa meðferðis staðfestingar á skráningu, eignarhaldi og búsetu í öðru landi.
Hafðu samband við tryggingafélagið í heimalandi þínu til að fá upplýsingar um hvort tryggingin sé í enn gildi þegar þú ekur bílnum til styttri eða lengri tíma í Svíþjóð.
Bíl frá Svíþjóð ekið erlendis
Reglur þess ríkis sem flutt er til segja til um hversu lengi má aka bifreið sem er skráð í Svíþjóð í viðkomandi landi.
Reglur um skráningu bifreiða í Danmörku eru mismunandi og fara eftir því hvort viðkomandi ferðast yfir sundið til vinnu, dvelur tímabundið í Danmörku eða hefur fasta búsetu í landinu.
Skýr takmörk eru fyrir því hve mikið, og með hvaða skilyrðum, má nota bifreið sem skráð er í Svíþjóð í Danmörku, ef eigandinn er með lögheimili í Danmörku. Sérstakt samþykki danskra skattayfirvalda þarf til að mega nota bifreiðina í Danmörku. Á eyðublaði 21059 er hægt að sækja um leyfi til að aka bifreið frá landamærum að dönsku lögheimili. Sé bifreið sem er skráð í Svíþjóð ekið í Danmörku án þessa leyfis má eiga von á sekt.
Hafa skal samband við skattayfirvöld og biðja um skráningardeild ökutækja (Centralregisteret for motorkøretøjer) til að fá frekari upplýsingar um reglur varðandi notkun ökutækja sem skráð eru erlendis í Danmörku.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.