Bíll í Danmörku
Meginreglan er sú að bíll þarf að vera skráður í Danmörku ef einstaklingur býr þar. Ef þú býrð í Danmörku og átt bíl sem er skráður í Danmörku þarftu einnig að tryggja bílinn þar í landi.
Skráning bíls þegar flutt er til Danmerkur
Þegar flutt er til Danmerkur þarf að skrá bifhjólið eða bílinn og hann þarf að fá danskar númeraplötur. Greiða þarf skráningargjald til að fá danskar númeraplötur. Þú hefur 30 daga til að skrá ökutækið.
Til fá ökutækið skráð þarf að fara í gegnum fimm skref:
- Senda tilkynningu til bifreiðastofnunar (Motorstyrelsen).
- Fá skoðun á bílinn eða bifhjólið.
- Óska eftir verðmati frá bifreiðaskráningu (Motorregistret) eða einkaaðila.
- Greiða skráningargjald.
- Fá ökutækið skráð hjá Motorregistret og kaupa nýjar númeraplötur.
Nánari upplýsingar um það sem þarf að gera eru á heimasíðu Motorstyrelsen.
Tollar og virðisaukaskattur ökutækja þegar flutt er til Danmerkur
Frá ESB-landi
Þegar flutt er til Danmerkur frá öðru ESB-landi þarf ekki að greiða tolla af ökutæki. Ef ökutækið er nýtt þarf þó að greiða 25% virðisaukaskatt.
Frá landi utan ESB
Þegar ökutæki er flutt inn frá landi utan ESB (þar á meðal Íslandi og Noregi) þarf að meginreglunni til að greiða tolla og virðisaukaskatt. Tollurinn er 10% og virðisaukaskattur er 25% af kaupverði, flutningskostnaði utan ESB og umsýslukostnaði. Í sumum tilfellum, til dæmis ef ökutækið er hluti af búslóð, er hægt að flytja það inn án þess að greiða tolla eða virðisaukaskatt eða á tolla- eða virðisaukaskattsþrepi sem er lægra en 10%.
Endurgreiðsla á hluta skráningargjalds þegar flutt er frá Danmörku
Í mörgum tilvikum er hægt að fá skráningargjaldið endurgreitt ef ökutækið er flutt út frá Danmörku og það er afskráð hjá Motorregistret. Útflutningsuppbót má ekki vera hærri en skráningargjaldið sem upphaflega var greitt fyrir ökutækið. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Motorstyrelsen.
Ekið á bíl sem er skráður erlendis í Danmörku
Einstaklingar sem búsettir eru í Danmörku mega að jafnaði ekki aka í ökutæki með erlendum númeraplötum. Ef flutt er til Danmerkur með bíl með erlendum númeraplötum verður að skrá bílinn í Danmörku eigi síðar en 30 dögum eftir að flutt er til landsins.
Ef þú býrð í mörgum löndum getur danska bifreiðastofnunin (Motorstyrelsen) tekið ákvörðun um hvar heimilisfesti þín er.
Ef þú ert ekki viss um hversu lengi þú hyggst dvelja í Danmörku eða hvar þú átt heimilisfesti getur þú sótt um leyfi hjá Motorstyrelsen til að aka með erlendum númeraplötum í Danmörku.
Þú getur fengið leyfi til að aka með erlendar númeraplötur í takmarkaðan tíma ef þú:
- flytur inn farartæki
- hefur fengið farartæki lánað hjá verkstæði erlendis vegna þess að bíllinn þinn er í viðgerð
- hyggst prófa búnað fyrir farartæki eða prófa farartæki sem skráð er erlendis. Slíkt próf þarf að vera í atvinnuskyni. Þú getur því ekki sótt um leyfi ef þú sem einstaklingur vilt prufukeyra farartæki sem þú íhugar að kaupa.
Í þessum þremur tilvikum þarftu að senda eyðublaðið „Kørsel i Danmark på udenlandske plader“ til Motorstyrelsen í gegnum skat.dk áður en þú kemur yfir landamærin til Danmerkur.
Bifreiðatryggingar
Ef þú átt bíl, bifhjól eða skellinöðru sem þú ekur á vegum í Danmörku er þér skylt að tryggja ökutækið. Tryggingin nær til tjóns sem eigandi eða notandi ökutækis veldur öðrum.
Hægt er að kaskótryggja ökutækið til viðbótar við skyldubundnu ábyrgðartrygginguna. Ef þú tókst lán til að kaupa bílinn eða keyptir hann með afborgunum gerir tryggingafélagið yfirleitt kröfu um að bíllinn sé kaskótryggður. Í grundvallaratriðum tryggir kaskótrygging allt tjón sem verður á ökutækinu sem og þjófnað.
Nánari upplýsingar um tryggingar er að finna á borger.dk og hjá upplýsingaþjónustu um tryggingar (Forsikringsoplysningen).
Reglubundin bifreiðaskoðun
Bíllinn verður að undirgangast reglubundna bifreiðaskoðun. Skoðunin er athugun á því að ökutækið uppfylli gildandi reglur um samþykki og skoðun ökutækja.
Tvö meginmarkmið bifreiðaskoðunar eru að tryggja:
- atriði er varða umferðaröryggi, svo með athugun á stýri, dekkjum, ljósum, stefnuljósum, endurskini og burðarhlutum á borð við fjöðrun og dempara
- umhverfislega þætti, svo sem með athugun á reyk, kolmónoxíði og hávaða.
Það hvenær fara á með bílinn í skoðun fer eftir gerð bílsins. Til dæmis þarf að skoða venjulega fólksbíla reglulega fjórum árum eftir fyrstu skráningu og síðan á tveggja ára fresti.
Umferðaryfirvöld (Færdselsstyrelsen) senda þér boð í skoðun átta vikum fyrir skoðanafrestinn. Þegar þú hefur fengið boðun í bifreiðaskoðun þarftu að hafa samband við skoðunarfyrirtæki sem getur framkvæmt skoðunina.
Ökuskírteini
Til þess að mega aka bifreið, vörubíl, rútu, skellinöðru eða bifhjóli í Danmörk þarf að hafa gilt ökuskírteini. Einnig þarf ökuskírteini til að aka með stóran aftanívagn. Ef þú ert 15–17 ára þarftu ökuskírteini til að mega aka lítilli skellinöðru.
Upplýsingar um hvaða ökuskírteini eru gild í Danmörku, hvernig hægt er að fá og endurnýja ökuskírteini í Danmörku og hvernig erlendu ökuskírteini er skipt út fyrir danskt er að finna á síðu Info Norden um ökuskírteini í Danmörku.
Umferðarreglur
Hámarkshraði
Hámarkshraði gildir fyrir fólksbíla, sendibifreiðar og mótorhjól, en sérstakar reglur gilda um vörubíla, rútur og fólksbíla með eftirvagni, til dæmis tjaldvagni. Almennur hámarkshraði í Danmörku er:
- 50 km/klst. í þéttbýli
- 80 km/klst. utan þéttbýlis
- 130 km/klst. á hraðbrautum.
Sumar- og vetrardekk
Ekki er gerð krafa um að nota vetrardekk að vetri til í Danmörku. Nagladekk eru leyfð frá 1. nóvember til 15. apríl.
Áfengishámark
Ekki má aka bíl ef áfengismagn í blóði er meira en 0,5 prómill. Þú getur fengið dóm fyrir ölvunarakstur ef prómillmagn er undir 0,5 er lögreglan metur sem svo að þú getir ekki ekið bíl á öruggan hátt.
Vegatollar
Engir vegatollar eru í Danmörku en brúargjald er greitt fyrir að aka yfir Stórabeltisbrúna og Eyrarsundsbrúna.
Hvar færðu svör við spurningum?
Ef spurningar vakna um inn- og útflutning bíla eða akstur erlendra bíla í Danmörku má hafa samband við Motorstyrelsen.
Þú getur leitað til Færdselsstyrelsen með spurningar sem varða reglubundna bifreiðaskoðun.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.