Skattar í Finnlandi

Verot Suomessa
Hér eru upplýsingar um hina ýmsu skatta, gjöld og skattfrádrátt í Finnlandi.

Almennt skal greiða skatt í starfslandi fremur en búsetulandi. Nánari upplýsingar um greiðslu skatta og undantekningar frá almennu reglunni eru á síðunni „Hvenær greiða á skatt til Finnlands“. Skoðaðu einnig síður okkar um skattlagningu lífeyristekna í Finnlandi, skattlagningu námsmanna í Finnlandi og skattlagningu starfsfólks á landamærasvæðum í Finnlandi. Nánari upplýsingar um skattlagningu vegna au pair-starfa eru á síðu finnska skattsins um au pair-störf í Finnlandi.

Fjallað er um skattlagningu vegna fasteigna og kaupa og sölu á fasteignum á síðunni Búseta í Finnlandi.

Skattlagning launatekna

Almenn skattskylda

Almennt skattskyldir einstaklingar í Finnlandi greiða þar stighækkandi skatt af tekjum sínum, sem þýðir að skattprósenta hækkar með vaxandi tekjum. Skattskyldar tekjur eru til dæmis laun, lífeyrir og greiðslur eða bætur sem fólk fær í stað launa eða lífeyris.

Á norrænu skattagáttinni eru upplýsingar um skattprósentu eftir árum, auk annarra upplýsinga um skattlagningu í Finnlandi. Með skattprósentureiknivél finnskra skattayfirvalda getur þú reiknað út hver þín skattprósenta er. Ekki er hægt að stimpla tekjur frá öðrum löndum inn í skattprósentureiknivélina.

Í Finnlandi er greiddur skattur af launatekjum til ríkis og búsetusveitarfélags. Auk þess greiða safnaðarmeðlimir lúthersku kirkjunnar og rétttrúnaðarkirkjunnar kirkjuskatt. Af launatekjum einstaklinga sem heyra undir finnska almannatryggingakerfið er dregið tryggingagjald vegna sjúkradagpeninga, atvinnuleysisbóta og lífeyris. Dagpeningagjald er dregið af tekjum yfir tiltekinni lágmarksupphæð. Einstaklingar með almenna skattskyldu í Finnlandi greiða einnig nefskatt til finnska ríkisútvarpsins. Nánari upplýsingar um útvarpsgjald finnska ríkisútvarpsins eru á heimasíðu finnskra skattyfirvalda.

Takmörkuð skattskylda

Einstaklingar með takmarkaða skattskyldu greiða tekjuskatt af launatekjum sínum eins og aðrir. Tekjuskatturinn er ávallt 35 prósent (15 prósent hjá íþróttafólki og sviðslistafólki) og almennur persónuafsláttur nemur 510 evrum á mánuði eða 17 evrum á dag.

Einstaklingar með takmarkaða skattskyldu geta óskað eftir því að greiða stighækkandi skatt í stað hefðbundins tekjuskatts, en þá getur skattprósenta breyst í hlutfalli við heildartekjur og -útgjöld á árinu. Einstaklingar sem greiða stighækkandi skatt eiga til dæmis rétt á að telja fram kostnað vegna ferðalaga milli heimilis og vinnustaðar og útgjöld vegna tekjusköpunar til skattfrádráttar.

Hægt er að sækja um stighækkandi skattlagningu hjá finnsku skattstofunni með eyðublaði 6148. Á eyðublaðinu þarf að gera grein fyrir áætluðum tekjum fyrir allt árið, bæði í Finnlandi og öðrum löndum. Með öðrum orðum þarft þú einnig að gera grein fyrir skattskyldum launatekjum þínum og frádráttarbærum útgjöldum i heimalandinu á eyðublaðinu. Finnska ríkið skattleggur aðeins tekjur sem þú færð í Finnlandi, en skattskyldar tekjur þínar í heimalandinu hækka skattprósentuna af tekjum þínum í Finnlandi. Einstaklingar sem sækja um að greiða stighækkandi skatt þurfa einnig að athuga skattayfirlit sem þeir fá sent í pósti eftir hvert ár og leiðrétta upplýsingar á því ef þörf krefur.

Fjármagnstekjuskattur

Skatthlutfall af fjármagnstekjum er 30 prósent upp að 30 þúsund evrum og eftir það 34 prósent. Til fjármagnstekna teljast arður af eignum, hagnaður af sölu eigna og aðrar þær tekjur sem líta má svo á að miði að auðsöfnun: til dæmis vaxtatekjur, arðstekjur af félögum á hlutabréfamarkaði, leigutekjur, ágóðahluti, tekjur vegna líftrygginga, fjármagnstekjur vegna skógiðnaðar, hagnaður af landareignum og tekjur vegna eignaaukningar. Útgjöld og sölutap má færa til skattfrádráttar.

Hafi fólk almenna skattskyldu í Finnlandi eru tekjur frá öðrum löndum einnig skattskyldar í Finnlandi í þeim tilvikum sem fjármunirnir eru ekki færðir til Finnlands.

Erfðafjárskattur

Greiða þarf erfðafjárskatt í Finnlandi af fé og eignum sem fólk erfir eða er ánafnað ef arfláti eða erfingi hans bjó í Finnlandi á dánartíma. Nánari upplýsingar eru á síðunni Andlát nákomins ættingja í Finnlandi og á heimasíðu finnskra skattayfirvalda.

Gjafaskattur

Gjafaskattur er greiddur af peningagjöf eða fyrirframgreiddum arfi að upphæð hærri en 5000 evrur. Nánari upplýsingar og leiðbeiningar um útfyllingu eyðublaðs eru á síðu finnska skattsins um gjafaskatt.

Skattfrádráttur

Ýmis útgjöld má færa til skattfrádráttar, svo sem heimilisútgjöld, útgjöld vegna tekjusköpunar og útgjöld vegna ferðalaga milli heimilis og vinnustaðar. Hluti útgjalda er dreginn frá áður en skattur er reiknaður út en hluti er dreginn beint af sköttunum. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnskra skattayfirvalda.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna