Um norrænu samstarfsnefndina (NSK)

Norræna samstarfsnefndin hefur umsjón með samhæfingu samstarfsins og er jafnframt stjórn skrifstofu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Norræna samstarfsnefndin er skipuð háttsettum embættismönnum frá löndunum.

Norrænu forsætisráðherrarnir bera meginábyrgð á norrænu ríkisstjórnasamstarfi. Þeir fela síðan samstarfsráðherrunum umrædda ábyrgð. Samstarfsráðherrarnir láta norrænu samstarfsnefndina annast samhæfingu starfsins.

Samstarfsnefndin er einnig stjórn skrifstofu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn þar sem hún undirbýr og fylgir eftir málum sem samstarfsráðherrarnir taka afstöðu til.

Samstarfsnefndin fundar að öllu jöfnu 8-10 sinnum á ári undir formennsku embættismanns frá formennskulandinu hverju sinni. Formennskan í norrænu ríkisstjórnasamstarfi færist árlega á milli landanna.

Í hverju landi, einnig Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, er samstarfsskrifstofa sem samhæfir störf ráðherranefndarinnar (samstarfsráðherranna) og miðlægrar stjórnsýslu í löndunum.