1400 lítrar af vatni til að framleiða einn stuttermabol

25.11.14 | Fréttir
Ustillingsvindu
Ljósmyndari
Karin Beate Nøsterud/norden.org
Framleiðsla á vefnaðarvöru krefst gríðarlegs magns af vatni. Til að framleiða einn stuttermabol þarf um 1400 lítra, sem er meira en rúmast í 10 fullum baðkörum. Í nýrri neytendahandbók og heimildarmynd beina Norræna ráðherranefndin og Umhverfisstofnun Danmerkur sjónum að því hvað norrænir neytendur geta gert til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þessa iðnaðar.

Auðvelt fyrir neytendur að hafa áhrif

Handbókin „Nýtum fötin –notum höfuðið – verndum umhverfið“ inniheldur ýmsar ábendingar um hvernig neytendur geta haft áhrif með breyttu neyslumynstri. Sem dæmi getur aukin endurnýting fatnaðar dregið úr þörf fyrir framleiðslu sem er skaðleg umhverfinu.

Í handbókinni er lögð áhersla á að meðvitaðir neytendur geti auðveldlega haft áhrif, t.d. með því að kalla eftir auknum gæðum, kaupa og selja notað, fá lánað hjá vinum, nýta sér fataskiptaviðburði og gefa góðgerðastofnunum notuð föt. Eru neytendur hvattir til að þrýsta á framleiðendur með því að velja frekar umhverfismerkta vefnaðarvöru, svo sem með Svansmerkinu eða evrópska umhverfismerkinu Blóminu.

Efni handbókarinnar byggir á skýrslu um endurnýtingu vefnaðarvöru sem kom út á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar þann 24. nóvember.

Við framleiðslu á vefnaðarvöru eru notuð ýmis íðefni, auk mikils magns af vatni. Í nýlegri sænskri rannsókn greindust 165 skaðleg íðefni í slíku framleiðsluferli. Þá valda árleg innkaup meðalneytanda á Norðurlöndum u.þ.b. jafn mikilli losun koltvísýrings og 2000 kílómetra akstur í fjölskyldubílnum.

„Fötin okkar skilja eftir sig stærra kolefnisspor en samanlögð rafmagnsnotkun allra heimilistækja. Við getum haft virkileg áhrif með því að breyta neyslumynstri okkar hvað fatnað snertir,“ segir Lone Lykke Nielsen, líffræðingur hjá Umhverfisstofnun Danmerkur og fulltrúi í vinnuhópi Norrænu ráðherranefndarinnar um aðgerðir til að lágmarka úrgang.

Nánari upplýsingar

Skýrslan „Changing consumer behaviour towards increased prevention of textile waste“ er unnin af danska fyrirtækinu Rostra Kommunikation fyrir vinnuhóp Norrænu ráðherranefndarinnar um að lágmarka úrgang, Norræna úrgangshópinn (NAG) og vinnuhópinn um sjálfbæra neyslu og framleiðslu (HKP). Skýrslan er unnin í samstarfi við umhverfisstofnanir í Danmörku (Miljøstyrelsen), Noregi (Miljødirektoratet), Svíþjóð (Naturvårdsverket) og Finnlandi (Miljöcentral).

Hér má sækja leiðbeiningahandbókina, heimildarmyndina og skýrsluna endurgjaldslaust á rafrænu formi

Tenglar á myndina á dönsku, norsku, sænsku og finnsku á youtube-rás Norrænu ráðherranefndarinnar:

• Danska • Norska • Sænska • Finnska