50 viðburðir á lýðræðishátíðum sumarsins

04.06.18 | Fréttir
Folkemøde_cirkuspladsen
Photographer
Joshua Tree Photography
Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð verða í stóru hlutverki á lýðræðishátíðum sumarsins og standa á bak við alls fimmtíu viðburði í sex löndum. Umræðuefnin eru mörg og mikilvæg – þar á meðal stafræn þróun, ungt fólk og sjálfbærni.

Yfirlit yfir hátíðirnar

Yfirferðin hefst á Álandseyjum og lýkur á Íslandi. Norrænt samstarf er á bak við alls fimmtíu viðburði í sex löndum. Norðurlönd í brennidepli sáu um skipulagningu viðburðanna.

• Júní - Álandseyjar, AlandicaDebatt
• Júní - Danmörk, Borgarafundurinn á Borgundarhólmi
• Júlí - Svíþjóð, Almedalsvikan
• Júlí - Finnland, SuomiAreena
• Ágúst - Noregur, Arendalsvikan
• September - Ísland, Lýsa
 

Álandseyjar, AlandicaDebatt, 13. - 14. júní

Á Álandseyjum verður hátíðin AlandicaDebatt haldin í fyrsta sinn. Á hátíðinni verður fjallað um samfélagsmálefni frá sjónarhorni Norðurlanda. Norræna ráðherranefndin og Norræna velferðarmiðstöðin (NVC) taka þátt á báðum dögum hátíðarinnar og leiða umræðu um geðheilsu ungmenna og borgir hannaðar fyrir aldraða. Ræddur verður kynbundinn launamunur og horft til íslensku laganna um jafnlaunavottun. AlandicaDebatt lýkur með samtali milli samvinnuráðherranna Anne Berner (FI) og Ninu Fellman (Å) og Krister Bringeus, frá utanríkisráðuneyti Svíþjóðar um mikilvægi norrænnar samvinnu.

Danmörk, Borgarafundurinn á Borgundarhólmi, 14. - 17. júní

15 viðburðir með 70 þátttakendum eru á dagskrá í tjaldi Norðurlandanna á Sirkustorginu (C2). Sophie Løhde, ráðherra nýsköpunar hjá hinu opinbera, mun ræða stafræna þróun og einkalíf. Við rýnum í lýðræðisþátttöku á árinu 2018 með aðstoð ungmenna. Við gægjumst inn í framtíðina og hittum þar fyrir sjálfbæran neytanda, og komumst að því hvernig er að gangast undir aðgerð gegnum netið, með aðstoð Karenar Klint frá Velferðarnefnd Norðurlandaráðs. Fundarstjórarnir tveir eru ekki af verri endanum; Nynne Bjerre Christensen, fjölmiðlakona, og Anders Bæksgaard, ritstjóri stjórnmálafrétta. Þau stýra umræðunum þessa daga í Borgundarhólmi.


Svíþjóð, Almedalen, 1. - 2. júlí

Við hlökkum til að heyra svörin við eftirfarandi spurningum sem settar verða fram í Almedal; Hvaða tækifæri búa í hringlaga efnahag og plasti? Hver eru síðustu skrefin sem stíga þarf til að ná raunverulegu jafnrétti? Hvað stýrir neyslu okkar? Hvernig getum við séð til þess að umræða um samþættingu stýrist í meira mæli af staðreyndum? Alice Bah Kuhnke, menningar- og lýðræðisráðherra opnar dagskránna 1. júlí og Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, og Per Bolund, ráðherra fjármálamarkaða og neytendamála og staðgengill fjármálaráðherra, taka þátt í málstofum þann 2. júlí.


Noregur, Arendalsvikan, 13. - 18. ágúst

Norræna ráðherranefndin setur fram eftirfarandi grundvallarspurningu: Er Parísarsamkomulagið raunhæft – geta Norðurlönd verið í fararbroddi? Fyrrum loftslagsmálaráðherra Noregs kynnir greiningu sína á umhverfismálum á Norðurlöndum. Norskt stjórnmálafólk, baráttufólk fyrir náttúruvernd og aðilar úr atvinnulífinu munu taka þátt í pallborðsumræðum um hvernig Norðurlöndin geta orðið grænni. Þar að auki verða áhugaverðar umræður um jafnrétti á Norðurlöndum, hvernig draga má úr losun í samgöngugeiranum og hreyfanleika námsfólks Einnig verða skoðaðar aðgerðir sem styrkja tengsl og fyrirbyggja ofbeldi og einangrun meðal ungs fólks. Alla vikuna verður hægt að hitta stjórnmálafólk og aðila úr viðskiptalífinu og hlaðvarpsþættir verða sendir út beint af hátíðinni.


Finnland, SuomiAreena í Björneborg, 16. - 20. júlí

Café Norden verður opið daglega í skála Norðurlanda. Við beinum sjónum að norrænu samstarfi og stöndum fyrir ýmsum viðburðum sem snúa að Norðurlöndum. Eitt meginþemað á SuomiAreena er hlutverk Norðurlanda í sjálfbærri neyslu og framleiðslu og meðlimir Norðurlandaráðs munu taka þátt í pallborðsumræðum. Önnur umræðuefni vikunnar eru stafrænar stjórnsýsluhindranir, jafnrétti og tungumálanotkun í norrænu samstarfi.


Ísland, LÝSA, 7. - 8. september

Norðurlönd í brennidepli beina sjónum að mikilvægum málefnum á borð við tækni í velferðarkerfinu, ungum fíkniefnaneytendum og umhverfismálum. Jafnréttismál og lífríki sjávar eru meðal annarra umræðuefna. Ísland var fyrsta landið á Norðurlöndum til að festa jafnlaunavottun í lög og nú verður ræddur möguleikinn á sameiginlegri norrænni jafnlaunavottun, innbláinni af íslenska líkaninu. Þátttakendur verða Þorsteinn Víglundsson, alþingismaður og fyrrum félags- og jafnréttismálaráðherra, Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdarstjóri Jafnréttisstofu og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi í sendinefnd Íslands í Norðurlandaráði. Við ætlum einnig að skoða nánar lífríki sjávar og ræða umhverfisvæn fiskiskip, líforku, lífhagkerfi og hvernig við sem neytendur getum haft áhrif á lífríki sjávar.

 


 

Contact information