Áhersla á græn umskipti í nýrri norrænni samstarfsáætlun á sviði orkumála

16.12.21 | Fréttir
Havvindmøller ved Samsø
Photographer
Anne Sofie Bender/norden.org
Á næstu árum mun norrænt samstarf á sviði orkumála að miklu leyti hverfast um aðgerðir sem stuðla að grænum umskiptum og breytingu yfir í hagkerfi sem byggist á sjálfbærri og kolefnishlutlausri orku. Þetta kemur fram í nýrri norrænni samstarfsáætlun á sviði orkumála fyrir árin 2022-2024.

Í samstarfsáætluninni er greint frá sjö aðgerðasviðum sem leggja skal áherslu á á næstu árum. Um er að ræða græn orkuskipti, eflt samstarf um rannsóknir, samstarf á raforkumarkaði, orkunýtni, samstarf innan ESB og EES, félagslega sátt um orkumannvirki og græn umskipti í samgöngum.

Allar aðgerðir í samstarfsáætluninni stuðla að því að uppfylla markmiðin í hinni norrænu framtíðarsýn. Samkvæmt henni eiga Norðurlönd að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 og orkugeirinn leikur lykilhlutverk í þeirri vinnu.

ESB-þátturinn mikilvægur

„Það er mikilvægt að norrænu löndin haldi áfram hinu farsæla, norræna samstarfi á sviði orkumála. Við vinnum náið saman um raforkumarkaði og það þýðir að það sem á sér stað í orkumálum eins lands hefur mikla þýðingu fyrir hin löndin. Þar að auki höfum við sameiginlega orkustefnu innan ramma ESB og EES þar sem Norðurlönd geta saman tekið sér virkt hlutverk í þágu græna sáttmála ESB, the Green Deal,“ segir atvinnumálaráðherra Finnlands, Mika Lintilä, sem er formaður norrænna orkumálaráðherra árið 2021.

Tengslin við málefni ESB og EES skipa enn veigamikinn sess í norrænu orkumálasamstarfi. Í samstarfsáætluninni stendur meðal annars að með samstarfi og samhæfingu geti Norðurlönd aukið möguleika sína á að hafa áhrif á gang mála innan ESB og EES.

Norðurlönd eru í fararbroddi þegar kemur að sjálfbærum orkulausnum og hafa mikið fram að færa á evrópskum vettvangi, einnig nú þegar löndin þurfa að ná vopnum sínum eftir COVID-19.

Einnig áhersla á erfiðari greinar

Þungamiðjan er norrænt samstarf á raforkumarkaði en í samstarfsáætluninni er þverfaglegt samstarf einnig nefnt sem mikilvægur þáttur. Þar kemur fram að raforkuframleiðsla á Norðurlöndum sé á góðri leið með að verða koldíoxíðslaus en að í framtíðinni verði einnig lögð áhersla á þær greinar þar sem erfiðara er að draga úr losun koldíoxíðs, svo sem samgangna, iðnaðar og húshitunar.

„Samstarfið á sviði orkumála er algjört grundvallaratriði í viðleitni okkar til að ná markmiðum hinnar norrænu framtíðarsýnar. Markmiðið er kolefnishlutlaus orkuframleiðsla á Norðurlöndum en mikilvægur liður í samstarfinu er einnig að það komi neytendum til góða. Samstarf Norðurlanda á sviði orkumála er einstakt og er oft nefnt sem fyrirmynd í alþjóðlegu samhengi. Það þurfum við að standa vörð um til framtíðar,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.