Öflugra samstarf um sjálfbæra orku á Norðurlöndum
Orkumálaráðherrar Norðurlanda funduðu í Keflavík 12. nóvember 2014. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra var gestgjafi fundarins.
Hlutur endurnýjanlegrar orku í orkunotkun er meiri á Norðurlöndum en í flestum öðrum löndum. En hvað varðar orkunotkun í samgöngum og siglingum standa norrænu ríkin, líkt og önnur lönd, frammi fyrir erfiðum úrlausnarefnum. Ráðherrarnir eru sammála um að efla eigi norrænt samstarf um notkun endurnýjanlegrar orku til samgangna, þar á meðal siglinga og flugsamgangna, þannig að Norðurlönd nái markmiðum sínum í orku- og loftslagsmálum.
Þróun umhverfisvænna tæknilausna og öflugra samstarf um þekkingu er nauðsynlegur þáttur í grænum umskiptum, sögðu ráðherrarnir á fundinum. Þeir lýstu jafnframt mikilli ánægju með nýja áætlun Norrænna orkurannsókna þar sem sjónum er beint að nýrri orkutækni og sjálfbærum orkulausnum.
Ráðherrarnir vöktu sérstaka athygli á árangursríku samstarfi um norræna raforkumarkaðinn. Samstarfið er forsenda skilvirks og árangursríks raforkumarkaðar til hagsbóta fyrir atvinnulíf og almenning á Norðurlöndum. Ráðherrarnir undirstrika þess vegna mikilvægi áframhaldandi þróunar sameiginlegrar áætlanagerðar um orkunet þar sem áhersla er lögð á norrænt notagildi. Einnig verður lögð mikil áhersla á kerfisumsjón og samþættingu í tengslum við aukningu sjálfbærrar orku í netunum. Ráðherrarnir telja jafnframt mikilvægt að samstarf um aukna samþættingu norræns orkumarkaðar haldi áfram og að samstarfið um innri markað í Evrópu verði þróað frekar. Nálgast má nánari upplýsingar um ákvarðanir ráðherranna um sameiginlegan raforkumarkað Norðurlanda í tillögum um þróun norræns raforkumarkaðar frá Norræna raforkumarkaðshópnum.
Orkumálaráðherrarnir voru sammála um að orku- og loftslagsáætlun ESB fram til ársins 2030, sem nýlega var samþykkt, muni gegna mikilvægu hlutverki í stefnumótun í orkumálum á Norðurlöndum og í Evrópu og að rammi ESB fyrir 2030 muni þrýsta á aðra aðila fyrir fund COP21 í París á næsta ári.
Rasmus Helveg Pedersen, loftslags-, orku- og byggingamálaráðherra Danmerkur, tók fram að í formennskutíð Dana í Norrænu ráðherranefndinni árið 2015 yrði haldið áfram á þeirri braut sem hefði verið mörkuð í formennskutíð Íslendinga árið 2014. Kannaðir yrðu möguleikar á að nota lífrænt eldsneyti í samgöngum, það er að segja siglingum og loftflutningum. Jafnframt yrði lögð áhersla á norrænt notagildi í skipulagningu orkuflutningskerfisins og innleiðingu vindorku í raforkukerfin. Einnig verður lögð áhersla á orkugeymslu og aðra orkutækni fyrir strjálbýl svæði, það er að segja Grænland og Færeyjar.