Áhrif aðgerðapakka í orkumálum skoðuð í norrænni skýrslu

24.06.24 | Fréttir
Ljósmyndari
Pixabay
Á árunum 2021–2023 innleiddu ríkisstjórnir Norðurlanda 43 mótvægisaðgerðir til þess að koma til móts við hækkandi orkuverð. Í nýrri skýrslu eru áhrif þeirra á tekjudreifingu, loftslagið og umhverfið skoðuð.

Í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og innrásar Rússa í Úkraínu rauk raforku- og eldsneytisverð upp. Norrænu löndin gripu til fjölda aðgerða til að hjálpa norrænum heimilum og atvinnulífinu að mæta auknum kostnaði vegna raforku, hitunar og eldsneytis.

 

Í nýrri skýrslu er litið á nokkrar þessara aðgerða með tilliti til áhrifa þeirra á tekjudreifingu, loftslagið og umhverfið og er niðurstaðan sú að margar aðgerðanna hafi unnið gegn skilvirkri orkunotkun eða haft óæskileg áhrif á loftslagið. Að auki hafi aðgerðirnar aðeins að takmörkuðu leyti gagnast lágtekjuheimilum.

Fara á mis við „win-win“-stöðu

Samkvæmt skýrslunni mistókst norrænu ríkisstjórnunum í mörgum tilvikum að skapa „win-win“-stöðu með aðgerðunum þar sem jákvæð áhrif á loftslagið til lengri tíma væru tryggð.

 

Einungis ein aðgerð í Danmörku og ein í Noregi studdu með beinum hætti við fjárfestingar í grænni tækni. Í skýrslunni er einnig bent á að með ýmiss konar niðurgreiðslum á orkukostnaði kunni að hafa orðið til væntingar um stuðning til framtíðar. Slíkar væntingar geti dregið úr hvata til þess að fara sparlega með orku og unnið gegn því að núverandi búnaði sé skipt út fyrir grænni kosti.

Skýrslan sýnir greinilega að undirbúningur aðgerðanna einkenndist af tímaskorti og var ekki í samræmi við markmið þeirra.

Magnus Cederlöf, formaður norræns vinnuhóps um umhverfis- og efnahagsmál (NME)

„Skýrslan sýnir greinilega að undirbúningur aðgerðanna einkenndist af tímaskorti og var ekki í samræmi við markmið þeirra,“ segir Magnus Cederlöf, formaður norræns vinnuhóps um umhverfis- og efnahagsmál (NME), sem lét vinna skýrsluna.

Cederlöf undirstrikar jafnframt að mikilvægt sé að hafa í huga að áhrif viðbragða landanna við orkukreppunni séu enn ekki komin fram að fullu og því geti myndin skýrst breyst þegar frekari gögn liggja fyrir.

„Við teljum þó að skýrslan geti átt þátt í að leggja grunn að skilvirkari aðgerðapökkum í framtíðinni ef taka þarf ákvarðanir hratt eða við óþekktar eða erfiðar aðstæður,“ segir Cederlöf.

Staðreyndir:

  • Á árunum 2021–2023 innleiddu norrænu ríkisstjórnirnar 43 mótvægisaðgerðir. *Ísland greip ekki til neinna aðgerða.
  • Í skýrslunni var einnig fjallað um aðrar mótvægisaðgerðir sem hægt hefði verið að grípa til sem að öllum líkindum hefðu átt betur við.

 

Norrænni vinnuhópurinn um umhverfis- og efnahagsmál (NME) á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmála óskaði eftir skýrslunni. Skýrslan var unnin af samstarfsneti undir stjórn Anthesis AB í samstarfi við Menon Economics og Kaupmannahafnarháskóla. 

Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á sumarfundi ECEEE (European Council for an Energy Efficient Economy) og einnig fyrir norrænu embættismannanefndinni um orkumál og norrænu embættismannanefndinni um efnahagsmál.