Aukinn tekjumunur á Norðurlöndum

02.05.18 | Fréttir
Ældre på gaden
Photographer
Benjamin Suomela / Norden.org
Þeir ríku verða ríkari um leið og fátæktin eykst einnig á Norðurlöndum. Meginskýringin virðist vera bótakerfið sem er ekki eins tekjudreifandi og áður auk þess sem bætur hækka ekki í sama takti og launin, segir í nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni.

„Aukin tekjudreifing er alþjóðlegt fyrirbæri. Aukningin á Norðurlöndum byrjaði neðarlega en hefur verið hraðari í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku en í OECD-löndunum að meðaltali,“ segir Jesper Roine, einn ritstjóri árgangs 2018 af Nordic Economic Policy Review.

Norræna ráðherranefndin gefur tímaritið út með aðstoð fjármálaráðuneytanna í löndunum. Tímaritinu er ætlað að miðla niðurstöðum nýjustu efnahagsrannsókna til breiðari hóps. Þar er fjallað um efnahagsleg og pólitísk málefni sem eiga erindi til allra norrænu landanna.

Lágtekjufólk kemur verst út

Í Bandaríkjunum og öðrum enskumælandi löndum ræðst aukin tekjudreifing af stærri mun á launum og öðrum markaðstekjum. Þetta er skýrt með tækniþróuninni, hnattvæðingunni og stéttarfélögum sem standa illa að vígi. Á Norðurlöndum virðast umræddar breytingar ekki hafa haft marktæk áhrif á tekjudreifinguna. Aðalskýringin virðist vera skatta- og bótakerfið þar sem endurdreifing tekna er minni en áður. Þetta er skýrt með því að bætur hafi ekki hækkað um leið og laun. Þetta virðist meginástæðan fyrir því að hækkun ráðstöfunartekna fólks með lægstu tekjurnar er mun hægari en hjá þeim sem hærri tekjur hafa.

Á sama tíma aukast tekjur hinna efnameiri á Norðurlöndum. Skýringin er sú að hlutfall fjármagnstekna (sem skiptast ójafnar en aðrar tekjur) af heildartekjum hefur aukist um leið og skipting þeirra er orðin ójafnari en áður. Hið síðarnefnda er vegna þess að vægi arðgreiðslna og fjármagnstekna (þar sem skiptingin er mjög ójöfn) hefur aukist miðað við vaxtatekjur (sem dreifast jafnar).

Dýrmæt velferðarþjónusta jafnar út

Í skýrslunni kemur einnig fram að opinber velferðarþjónusta, skólar, hjúkrun og umönnun, hefur mikil jöfnunaráhrif Ef verðmæti þeirrar þjónustu er tekin með í útreikninga á tekjum minnkar hlutfallsleg fátækt (hlutfall íbúa með lægri tekjur en 60% meðaltekna) gífurlega. Á það einkum við um einhleypt fólk og eldri borgara.
Önnur niðurstaða skýrslunnar er sú að ráðstöfunartekjur kvenna skiptist jafnar en karla. Minnkandi tekjumunur kvenna og karla hefur dregið úr heildartekjumuninum.

Hinn ritstjóri tímaritsins, Lars Calmfors prófessor emeritus, segir að greiningar á umfanginu vekji ýmsar efnahagslegar og pólitískar spurningar:

• Eiga bætur að hækka í takt við laun?
• Ber að forðast gjaldtöku í velferðarþjónustu?
• Á að leggja hærri skatta á fjármagn og fjármagnstekjur?

„Svörin við þessum spurningin fara að miklu leyti eftir því hvað fólki finnst um þann vaxandi tekjumun sem orðið hefur á Norðurlöndum á undanförnum áratugum. Er um að ræða æskilega leiðréttingu á tekjujöfnun sem gekk út í öfgar einkum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar? Svarið fer eftir því hvernig menn meta áhrif hvata á tekjujöfnun en einnig hlutfallslegt mat á markmiðum hagræðingar og jöfnunar,“ segir Lars Calmfors.