Bækur tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verði þýddar

20.09.17 | Fréttir
Litteraturpris pressefoto
Photographer
norden.org
Að einum og hálfum mánuði liðnum verður hulunni svipt af því hver hljóta bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár. Fái Norðurlandaráð vilja sínum framgengt verða öll tilnefndu verkin þýdd á öll hin norrænu málin.

„Það er vandamál hve mörg hinna tilnefndu verka og verðlaunaverka eru ekki þýdd á öll hin norrænu málin, einkum smærri málin svo sem samísku og grænlensku. Því viljum við auka stuðning okkar við þýðingu norrænna bókmenntaverka og taka frá fjármagn í þeim tilgangi fyrir tilnefndar bækur og verðlaunabækur,“ segir Jorodd Asphjell, formaður norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.

Norska ríkissjónvarpið, NRK, hefur tekið saman yfirlit yfir þær verðlaunabækur Norðurlandaráðs sem þýddar hafa verið frá árinu 2006. Þar kemur fram að ein verðlaunabókanna var hvorki þýdd á norsku né dönsku, þrjár voru ekki þýddar á íslensku og fimm hvorki á finnsku né færeysku. Engin bókanna var þýdd á grænlensku eða samísku.

Það er vandamál hve mörg hinna tilnefndu verka og verðlaunaverka eru ekki þýdd á öll hin norrænu málin, einkum smærri málin svo sem samísku og grænlensku.

Sérfræðingar ræddu málefnið á bókmenntahátíðinni í Lillehammer í Noregi í maí og bentu á að snúið væri að taka pólitíska ákvörðun um að þýða bækur og gefa þær út. Líkt og aðrar bækur væru verðlaunabækurnar háðar lögmálum markaðarins og það væri undir bókaforlögum komið hvaða norrænu bókmenntaverk væru þýdd og gefin út.

Sérfræðingarnir töldu þó að aukið fjármagn, sem myndi nema 3,1 milljón DKK og verða frátekið til þýðingar tilnefndra verka og verðlaunaverka, gæti virkað sem jákvæður hvati.

Norræna þekkingar- og menningarnefndin fjallaði um tillöguna á fundi sínum í Reykjavík og hún verður lögð fram á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki í byrjun nóvember.