Bjóða þarf upp á námsleið fyrir námsmenn frá Belarús
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs kom saman á rafrænum fundi fyrir skemmstu. Á fundinum ákvað forsætisnefndin að leggja það til við ríkisstjórnir Norðurlanda að þróuð verði námsleið fyrir námsmenn frá Belarús á árunum 2023–2026 og að Norræna ráðherranefndin annist samræmingu hennar. Í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum 2018–2022 segir að Norðurlöndin, þvert á lönd og flokkspólitískar línur, einkennist af djúpstæðri virðingu fyrir lýðræði, réttarríki, jafnræði og mannréttindum. Þá segir í stefnunni að Norðurlönd eigi að leggja sitt af mörkum í heiminum með því að eiga sér ávallt sterka rödd sem vekur máls á og ver þessi gildi.
„Með því að gefa ungu fólki í Belarús kost á að stunda nám á Norðurlöndum er hægt að gefa því tækifæri á námi sem byggist á lýðræðislegum gildum og um leið sýna íbúum landsins að þeir séu ekki gleymdir,“ segir Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs.
Þróun mála í Belarús áhyggjuefni
Norðurlandaráð hefur við mörg tækifæri lýst áhyggjum sínum af þróun mála í Belarús og af því að mannréttindi og lýðræðislegar leikreglur séu þar fyrir borð bornar en forsætisnefndin vakti einnig máls á þessu á fundi sínum með Svetlönu Tsíkanovskaju, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, í fyrra.
Einhugur innan norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar
Finnska landsdeildin flutti tillöguna og í september fjallaði norræna þekkingar- og menningarnefndin um hana en innan nefndarinnar var stuðningur við að halda áfram með tilmælin. Kjarni tillögunnar naut einnig stuðnings innan flokkahópa Norðurlandaráðs.
Með því að gefa ungu fólki í Belarús kost á að stunda nám á Norðurlöndum er hægt að gefa því tækifæri á námi sem byggist á lýðræðislegum gildum og um leið sýna íbúum landsins að þeir séu ekki gleymdir.