Do Rights! – norræn handbók um að koma börnum til áhrifa

28.05.16 | Fréttir
Ungdomspanel för Barnrättsmöte
Ljósmyndari
Anna Rosenberg
Norræna barna- og ungmennanefndin hefur sent frá sér ritið „Do rights! Nordic perspectives on child and youth participation“. Hverju fáum við áorkað ef við tökum réttindi barna alvarlega? Spurningin var rædd í pallborði þar sem saman sátu fulltrúar nokkurra verkefna um réttindi og áhrif barna, sem greint er frá í handbókinni.

Ritið „Do rights! Nordic perspectives on child and youth participation“ var kynnt á norrænum fundi um barnaréttindi í Kaupmannahöfn. 

Do Rights! hefur að geyma níu norræn dæmi auk leiðarvísis. Handbókin er einkum hagnýt fyrir fullorðna sem hafa ekki unnið með málefni tengd réttindum barna.

„Við sjáum mörg dæmi þess að við á Norðurlöndum getum lært margt hvert af öðru,“ sagði Tove Kjellander, annar ritstjóri bókarinnar. 

Smábarnanefnd þar sem hlustað er á yngstu börnin

Hvernig er hægt að flétta viðhorf smábarna inn í tölfræðilegar kannanir? Í ritinu er greint frá því hvernig Barnaráðið í Danmörku leysti það mál með svonefndri Smábarnanefnd og talandi spurningavél. Síðasta könnunin fjallaði um börn og fjölmiðla. Hvernig nota börn spjaldtölvurnar?
„Við bjuggum til talandi spurningavél. Börnin horfa á skjá með myndum og smella síðan á tákn fyrir það svar sem þau velja. Þetta er ný aðferð til að vinna með mjög ungum börnum. Um þúsund börn taka þátt í Smábarnanefndinni og gefa okkur öruggar vísbendingar um viðhorf ungra barna til ákveðinna málefna,“ sagði Line Emma Jønson, greiningarráðgjafi hjá danska Barnaráðinu.

Ungmenni hafa áhrif á bæjarskipulag á Álandseyjum

Barnaheill á Álandseyjum og bæjaryfirvöld í Maríuhöfn hafa átt samstarf um umsagnarferli meðal barna í aðdraganda þess að tekin verður ákvörðun um nýtt bæjarskipulag sem kveður á um mynd bæjarins til framtíðar. Unnið var áhrifamat meðal barnanna sem sýnir hvaða afleiðingar ákvarðanirnar munu hafa fyrir börnin. Terese Flöjt frá bæjaryfirvöldum í Maríuhöfn var ein þeirra sem stóð að gönguferðum um bæinn með börnunum.
„Í augum barnanna er bærinn fundarstaður þar sem þau hitta félaga sína. Þau spyrja hvers vegna bekkirnir í almenningsgörðum snúa allir í sömu átt. Hvers vegna þeim sé ekki raðað þannig að fólk geti rabbað saman. Það er hvorki erfitt né hættulegt að virkja börnin, heldur mjög gefandi. Gleymið bara ekki að leika ykkur aðeins fyrst, var ráð sem var hvíslað að okkur, fullorðna fólkinu.“

Samtök fylgdarlausra barna

Samkvæmt stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í málefnum barna og ungmenna ber að styðja við ýmis konar félagsstarf og þátttöku í lýðræðislegum ferlum. Hamza Ibrahim frá Ensamkommandes Förbund (samtökum fylgdarlausra barna) í Svíþjóð er einn af greinarhöfundum handbókarinnar:
„Ég kom einn míns liðs til Malmö árið 2010. Ári síðar stofnaði ég fótboltalið ásamt öðrum fylgdarlausum börnum. Þegar við fengum kennitölu stofnuðum við íþróttafélag og í samstarfi við borgaryfirvöld í Malmö opnuðum við fundarstað. Í dag aðstoðum við önnur börn sem flúið hafa til Svíþjóðar við að finna tilgang með lífinu. Við erum til í að hvetja önnur fylgdarlaus börn á Norðurlöndum til að bindast samtökum,“ sagði Hamza Ibrahim.

Stjórnlög unga fólksins og hreyfing hinsegin Sama 

Í pallborðinu sat einnig Elísabet Gísladóttir fyrir hönd embættis umboðsmanns barna á Íslandi og verkefnisins Stjórnlög unga fólksins en markmið verkefnisins er að tryggja að skoðanir barna og ungmenna fái að heyrast í endurskoðunarferli stjórnarskrárinnar. Í handbókinni er einnig sagt frá verkefninu „Queering Sápmi“ en tilgangur þess er að efla samtök hinsegin Sama og starf sem tekur mið af sjónarmiðum þeirra. Þá má nefna þekkingarmiðlun á Grænlandi, upplýsingaverkefni Æskulýðsráðs Færeyja um leiðir til menntunar þar í landi og verkefnið „Barnvænar borgir“ sem Barnahjálp SÞ stendur að í Finnlandi.

Viltu vita meira um norrænu verkefnin um réttindi og áhrif barna?