Einstakt traust vekur athygli

31.07.17 | Fréttir
Mennesker ved strand
Ljósmyndari
Yadid Levy / Norden.org
Meðal íbúa Norðurlanda ríkir traust sem er sérstakt á heimsmælikvarða. Ný skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar, sem sýnir hvernig traust hefur áhrif á þjóðarhag, glæpatíðni og hamingju fólks, vekur athygli um þessar mundir á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu.

Titill skýrslunnar er Tillit – det nordiske gullet (Traust – norræna gullið) vegna þess að traust er sú auðlind sem skapað hefur mest verðmæti í samfélögum Norðurlanda.

Gull í litlum mæli er víða að finna á Norðurlöndum. Gullið sem leynist í fjalllendi er að mestu svo fínmulið að það er vart sjáanlegt berum augum. Þannig er því einnig farið með norræna traustið. Þrátt fyrir að traust einkenni samfélög og lífshætti Norðurlandabúa er sjaldan fjallað um það sérstaklega í samfélagsumræðunni.

Traust er gjaldmiðill

Samkvæmt netmiðlinum EU Observer bætir umrætt traust samkeppnisstöðu Norðurlanda á stafrænni öld. Norræna módelið hafi átt þátt í því að skipa hagkerfum svæðisins meðal hinna öflugustu í heimi. En það sem skipti kannski mestu máli sé sú staðreynd hvað hagkerfi landanna eru vel í stakk búin til að standa af sér efnahagslegar kreppur og sveiflur.

„Víða um heim á fólk erfitt með að skilja að traust er kannski verðmætasta en jafnframt viðkvæmasta auðlind samfélagsins. Norðurlandaþjóðirnar átta sig á því að traust er gjaldmiðill og að sá gjaldmiðill getur skilað gífurlegum hagnaði, efnahagslega, pólitískt og samfélagslega,“ segir Rachel Botsmann, en hún er ástralskur fræðimaður og sérfræðingur í deilihagkerfi við Oxford-háskólann í Englandi.

Traust er ekki gefið

Norræna módelið byggir í heild sinni á því að samkomulag ríkir um gagnkvæmt traust milli stjórnvalda og almennings. Gagnsæi í pólitísku samstarfi á Norðurlöndum á hvergi sinn líka í heiminum og hefur átt þátt í að tengja löndin sterkum böndum. Gagnsæi stjórnvalda má þakka því að við búum á því svæði í heiminum þar sem mest traust ríkir í samfélaginu. Við treystum hreinlega hvert öðru meira en gengur og gerist annars staðar.

„Traust er gullnáma norrænna samfélaga. Væri samfélagslegt traust ekki svona mikið, þyrftu Norðurlöndin harðara eftirlit og meira skrifræði en nú er raunin,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í viðtali við Sveriges Radio.