Forsætisráðherrar Norðurlandanna: Sameinumst um kynningu Norðurlanda á alþjóðavettvangi

28.10.14 | Fréttir
Nordiskt statsministermöte i Rosenbad
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Forsætisráðherrar Norðurlandanna ræddu bæði alþjóðamál og stjórnsýsluhindranir milli norrænu landanna á leiðtogafundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 28. október.

Á blaðamannafundi sínum fögnuðu forsætisráðherrarnir nýrri samstarfsáætlun um kynningu Norðurlanda á alþjóðavettvangi.

„Norðurlönd njóta góðs orðspors í alþjóðasamfélaginu og nú kemur í ljós hvernig við getum eflt það enn frekar. Ég tel að löndin geti stutt betur hvert við annað á alþjóðavettvangi,“ sagði Alexander Stubb, forsætisráðherra Finnlands.

Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, tók undir þetta og nefndi sérstaklega aukið samstarf um loftslags- og alþjóðamál:

„Við eigum að nýta okkur það að loftslagsmál eru nú í brennidepli og fylkja okkur saman um að alþjóðasamningur takist á loftslagsráðstefnu SÞ í París á næsta ári. Ef við stöndum saman getur okkar framlag vegið þungt í heimsmálunum.“

Thorning-Schmidt lagði áherslu á að stjórnsýsluhindranir milli Norðurlandanna væru einnig forgangssvið, ekki síst ef efla ætti hagvöxt í löndunum.

Norrænt raunsæi

Þá ræddu forsætisráðherrarnir málefni Mið-Austurlanda og þá staðreynd að Svíþjóð viðurkenndi Palestínu sem sjálfstætt ríki á á fundi þeirra fyrir blaðamannafundinn

„Við erum sammála um að vilja tveggja ríkja lausn á deilu Ísraela og Palestínumanna. En við erum líka ásátt um að fara ólíkar leiðir í því máli. Það er sennilega til marks um hið norræna raunsæi að slík sátt skuli ríkja um að fara ólíkar leiðir að sama markmiði,“ sagði hinn nýi forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, tók undir þetta og kom inn á málefni Rússlands og öryggismál almennt:

„Norðurlöndin eiga fjölbreytilegt samstarf um öryggismál og bæta hvert annað upp í því starfi.“

Þing Norðurlandaráðs, árlegt þing um málefni norræns samstarfs, stendur yfir næstu tvo daga. Í brennidepli verða sameiginlegur vinnumarkaður, menntamál og aðlögun á Norðurlöndum.

Lesið nýja áætlun um að kynna og marka stöðu Norðurlanda sameiginlega á alþjóðavettvangi.