Grænt ljós á Nordic Innovation House í New York

14.02.17 | Fréttir
Frukt og grønt og taxi i New York
Photographer
Silje Bergum Kinsten/ norden.org
Í vor opnar Nordic Innovation House í New York á vegum Norðurlandanna fimm. Norræna ráðherranefndin fjármagnar verkefnið en því er ætlað að aðstoða efnilega og metnaðarfulla frumkvöðla frá Norðurlöndum við að hasla sér völl á Bandaríkjamarkaði.

Verkefnið í New York kemur í framhaldi af Nordic Innovation House í Silicon Valley, en það skilað hefur góðum árangri sem mikilvægur stökkpallur fyrir norræn sprotafyrirtæki þar um slóðir. Opinberir aðilar frá öllum löndunum fimm leggjast nú á eitt um að setja nýsköpunarsetrið Nordic Innovation House á laggirnar í New York.

Norræna ráðherranefndin fjármagnar setrið í New York gegnum Norrænu nýsköpunarmiðstöðina í Ósló.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, fagnar því að norrænt samstarf leiði til áþreifanlegs framtaks sem aðstoði norræn fyrirtæki við að hasla sér völl á alþjóðavettvangi og skapa sjálfbæran hagvöxt á Norðurlöndum.

„Ég er sérlega ánægður með að við eflum norrænt samstarf atvinnulífsins með tilkomu Nordic Innovation House í New York. Um er að ræða mikilvægt skref fyrir norræn sprotafyrirtæki sem fá hér einstakt tækifæri til að hasla sér völl og ná árangri í Bandaríkjunum. Með traustum sameiginlegum stökkpalli fyrir norræna frumkvöðla og sprotafyrirtæki opnast nýjar dyr fyrir þéttara samstarf og ekki síst frábæran möguleika fyrir Norðurlönd að eflast með sameiginlegu átaki,“ segir Dagfinn Høybråten.

Aðstoðar þau efnilegustu

Gert er ráð fyrir að rekstur nýsköpunarsetursins Nordic Innovation House hefjist smám saman á vordögum 2017, en verði kominn á fullt í haust. Setrið verður tilraunaverkefni til þriggja ára þar til það getur fjármagnað sig sjálft.

Nýsköpunarsetrið leitar nú að aðila til að sjá um daglegan rekstur og starfsemi.

Starfsemin í New York felst í að bjóða frumkvöðlum upp á sameiginlega aðstöðu með aðgang að lögfræðiaðstoð og aðstoð við bókhald, skatta og atvinnuleyfi. Hugmyndin er að nýsköpunarsetrið aðstoði efnilegustu norrænu fyrirtækin með að lenda mjúkt á austurströnd Bandaríkjanna.

Með traustum sameiginlegum stökkpalli fyrir norræna frumkvöðla og sprotafyrirtæki opnast nýjar dyr fyrir þéttara samstarf og ekki síst frábæran möguleika fyrir Norðurlönd að eflast með sameiginlegu átaki.

Nordic Innovation House verður staðsett á Manhattan og er gert ráð fyrir skrifstofuaðstöðu fyrir tíu manns. Hvert land fær tvo stóla en áætlunin er sveigjanleg að því leyti að löndin geta nýtt sér stóla hinna landanna ef þeir standa auðir.

Fyrirtækin verða valin út frá ákveðnum reglum sem gilda um fyrirtæki frá öllum löndunum fimm. Hvert land metur sín „eigin“ fyrirtæki. Löndin velja sjálf fyrirtækin en þau eru endanlega samþykkt af vinnuhópi í samráði við yfirmann áætlunarinnar.

„Gott dæmi um norrænt samstarf“

Umhverfi sprotafyrirtækja er aðeins frábrugðið því sem gerist í Silicon Valley og því gerir nýsköpunarsetrið í New York ráð fyrir meiri fjölbreytni sprotafyrirtækja frá Norðurlöndum.

 „Þetta er gott dæmi um norrænt samstarf í verki! Ég var í New York og kynntist frumkvöðlaumhverfinu á fundum mínum með frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum þar í borg,“ segir Monica Mæland, atvinnulífsráðherra Noregs. Telur hún að metnaðarfullir frumkvöðlar frá Norðurlöndum muni fagna þessu tækifæri.

Norðmenn fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2017.

 „Norrænt nýsköpunarsetur mun búa í haginn fyrir norskra frumkvöðla, starfandi fyrirtæki en einnig þá sem hyggjast taka stökkið. Fámennar norskar atvinnugreinar geta notið góðs af samstarfi við norræna kollega á leið inn á hinn stóra Bandaríkjamarkað,“ bætir hún við.

Nordic Innovation House í New York, öflugt norrænt frumkvæði:

Innovasjon Norge hefur umsjón með verkefninu í samstarfi við aðalræðismannsskrifstofu Noregs og NACC (Norwegian American Chamber of Commerce). Eftirfarandi aðilar taka þátt í samstarfsverkefninu:

  • sænska aðalræðismannsskrifstofan í samstarfi við Business Sweden og Team Sweden,
  • Innovation Centre Denmark,
  • finnska aðalræðismannsskrifstofan í samstarfi við Team Finland (FinPro og Tekes),
  • Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við íslensku aðalræðismannsskrifstofuna og Promote Iceland.