Heiðursdoktor í þágu málfrelsis

13.06.14 | Fréttir
Ulla Carlsson, prófessor og forstjóri NORDICOM, hefur verið kjörin heiðursdoktor við háskólann í Tampere í Finnlandi. Nafnbótin var veitt við hátíðlega athöfn á þjóðhátíðardegi Svía, þann 6. júní.

Verkefni NORDICOM, Norrænnar gagnamiðstöðvar um fjölmiðlarannsóknir, felast í því að miðla upplýsingum um fjölmiðla- og samskiptarannsóknir og um fjölmiðlaþróun á Norðurlöndunum. Stofnunin hefur aðsetur við háskólann í Gautaborg, en þar hefur Ulla Carlsson starfað um árabil.

Tengill: http://www.nordicom.gu.se/sv

Ulla Carlsson er kjörin heiðursdoktor við félagsvísindadeild háskólans í Tampere fyrir einstakt framlag sitt til fjölmiðlaþróunar á Norðurlöndum og víðar og fyrir að lyfta grettistaki til að byggja upp nauðsynlega stofnanaumgjörð fyrir þekkingaröflun.

Ulla er stolt og glöð yfir nafnbótinni sem er umbun fyrir mikið og gott starf í þágu málfrelsis:  

„Það er mikill heiður að vera kjörin heiðursdoktor við háskólann í Tampere og hljóta slíka viðurkenningu fyrir norrænt samstarf, með áherslu á vægi norrænu stofnunarinnar. Eftir áralangt starf á norrænum vettvangi er ég sannfærð um gildi uppbyggilegrar samvinnu til að efla og bæta það starf sem unnið er í löndunum og styrkja stöðu þeirra innan Evrópu og á alþjóðavísu – ekki síst út frá sjónarmiðum lýðræðisins – þetta er kjarni hins svokallaða norræna notagildis.“