Hlutverk Norðurlandaráðs er að skapa norrænt notagildi

24.01.18 | Fréttir
Michael Tetzschner og Margot Wallström
Ljósmyndari
Mary Gestrin
Norðurlandaráð hóf starfsár sitt með janúarfundi í Stokkhólmi í þessari viku. Noregur fer með formennsku í ráðinu í ár og eru áherslusviðin í formennsku þeirra sjálfbærni og öryggi. Í tengslum við fundinn var einnig haldið málþing um netöryggi og stafræna tækniþróun.

Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs árið 2018, lagði áherslu á hlutverk ráðsins sem vettvangs pólitískrar umræðu í tengslum við málefni sem eru ofarlega á baugi og varðandi það að leitast við að ná fram sameiginlegu norrænu notagildi fyrir alla íbúa á Norðurlöndum.

„Í samræmi við þetta virðist rétt að hefja árið á því að ræða stafræna tækniþróun og netöryggi,“ sagði Michael Tetzscner. „Stafræn tækniþróun gegnsýrir allt samfélagið og það skiptir máli að við séum með skýra stefnu um það hvernig við nálgumst þá möguleika sem hún veitir okkur,“ sagði Tetzscner.

Auk samfélagsöryggis er tæknivæðing heilsugeirans, öryggi sjúklinga, menntun, aðlögun og frjálst flæði fólks, ásamt ýmsum verkefnum sem tengjast málefnum hafsins, á dagskrá norsku formennskuáætlunarinnar. 

Tækifæri Norðurlandabúa til að geta með auðveldum hætti flutt yfir landamæri innan svæðisins til þess að starfa eða stunda nám, er sem fyrr eitt af grundvallarmarkmiðum samstarfsins innan Norðurlandaráðs.

Alþjóðamál eru einnig á dagskrá Norðurlandaráðs og byggja þau á stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum sem samþykkt var í fyrra. Í stefnunni er lögð sérstök áhersla á málefni Eystrasalts-, Norðurskauts- og Evrópusambandssvæðisins.

14. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun „Hafið og auðlindir þess“, verða miðlæg á þemaþingi Norðurlandaráðs sem haldið verður á Akureyri í apríl. 

„Öll Norðurlöndin eru strandríki og það er skylda okkar að vera í forystu þegar kemur að sjálfbærri stjórnun hafsins sem auðlindar,“ segir Michael Tetzschner.

Norðurlandaráð er skipað 87 þingmönnum frá Norðurlöndunum fimm, ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.