Jakob Wegelius hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir „Mördarens apa“

27.10.15 | Fréttir
Vinder af Nordisk Råds børne- og ungdomslitteraturpris 2015
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Sænski rithöfundurinn Jakob Wegelius hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verkið Mördarens apa á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Reykjavík.

Verðlaunahafar síðasta árs, Håkon Øvreås rithöfundur og Øyvind Torseter myndskreytir, afhentu Wegeliusi verðlaunagripinn „Nordlys“ og verðlaunaféð, 350 þúsund danskar krónur.

Rökstuðningur

Með Mördarens apa blæs Jakob Wegelius nýju lífi í hið sígilda ævintýraform. Lesandinn slæst í för með górillunni Sallý Jones um sóðalegt hafnarhverfi Lissabon-borgar, í taugatrekkjandi siglingu um heimshöfin og í hið íburðarmikla hof furstans í Bhapur á Indlandi – allt til að freista þess að hreinsa nafn sjómannsins Henry Koskela, sem er besti vinur Sallýjar. Með hreinni frásagnargleði og frábærum persónulýsingum bregður höfundur upp ljóslifandi, sögulegri svipmynd frá upphafi 20. aldar – m.a. með heillandi lýsingum á tækninýjungum úr fortíðinni. Listilega gerðar myndskreytingar höfundar og póstkortin, þar sem ævintýrum Sallýjar eru gerð skil, innsigla heildræna upplifun lesandans.

Nánari upplýsingar um Jakob Wegelius á heimasíðu barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Nánari upplýsingar um verðlaun Norðurlandaráðs