Klaus Skytte nýr framkvæmdastjóri Norrænna orkurannsókna

20.11.19 | Fréttir
Klaus Skytte, direktör för Nordisk energiforskning

Klaus Skytte

Photographer
Poze Photography

Klaus Skytte er nýr framkvæmdastjóri Norrænna orkurannsókna.

Klaus Skytte, frá Danmörku, hefur verið valinn til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Norrænna orkurannsókna í Osló. Skytte er 49 ára, með doktorspróf í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og hefur frá árinu 1996 starfað á sviði umhverfis-, loftslags- og orkumála.

Klaus Skytte tekur við af Hans Jørgen Koch, sem hefur gegnt stöðunni í fjögur og hálft ár og hefur nú valið að fara á eftirlaun. Norrænar orkurannsóknir er stofnun innan Norrænu ráðherranefndarinnar og er ætlað að styðja við norrænt orkumálasamstarf.

- Klaus Skytte er einmitt rétti einstaklingurinn til að leiða Norrænar orkurannsóknir. Norrænar orkurannsóknir gegna mikilvægu hlutverki innan loftslags- og orkumála, en það eru einmitt veigamestu málin í grænum umskiptum Norðurlanda í að verða eitt samþættasta og sjálfbærasta svæði heims. Klaus hefur getið sér gott orð sem rannsakandi og stjórnandi og hefur sýnt, í fyrri verkefnum, að hann getur skapað samfélagsleg verðmæti með norrænu samstarfi, segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri ráðherranefndarinnar.

„Spennandi tímar fram undan“

Klaus Skytte hlakkar til að takast á við nýtt hlutverk.

- Það er mér mikill heiður að fá að stýra svo mikilvægri stofnun sem Norrænar orkurannsóknir er. Stofnunin býr yfir gríðarlega færu starfsfólki og gegnir nú þegar mikilvægu hlutverki í þróun norræns orkumálasamstarfs. Líkindin milli landanna, sem og traust okkar á milli, gerir samstarfið mögulegt. Hins vegar eru það einmitt hinir ólíku eiginleikar landanna sem gera samstarfið öflugt og gera okkur kleift að hafa skjót og sjálfbær umskipti, segir Skytte.

- Það eru spennandi tímar fram undan, þar sem loftslagsmál verða í auknu fyrirrúmi. Þessu fylgja áskoranir en einnig tækifæri.  Norðurlönd geta verið í forystu þegar kemur að loftslagshlutlausu samfélagi. Reynsla okkar af til dæmis vindorku sýnir að við getum haft græn umskipti og samtímis notað styrkleika okkar til að auka samkeppnishæfi. Jafnframt verðum við að tryggja að umskiptin stuðli að samfélagslegum jöfnuði en auki ekki bil milli ólíkra samfélagshópa. Það krefst hugsunar, aðgerða og ekki síst samstarfs. Ég hlakka til þess að taka þátt í að skapa þekkingargrunn í gegnum Norrænar orkurannsóknir, þekkingargrunn sem svo má nýta við að móta stefnu og taka nauðsynlegar pólitískar ákvarðanir.

Um Klaus Skytte:

Klaus Skytte er með doktorspróf í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Frá árinu 1996 hefur hann starfað á sviði umhverfis-, loftslags- og orkumála – bæði á Norðurlöndum og alþjóðlega.
Klaus er 49 ára gamall og lætur nú af störfum sem yfirmaður rannsókna á sviði orkuhagfræði við danska tækniháskólann (DTU). Klaus hefur jafnframt setið í áfrýjunarnefnd orkumála í Danmörku, verið helsti sérfræðingur Danmerkur í ISGAN – alþjóðlegu samstarfi um orkunet (Smart Grids) – og setið í stjórn og stýrt verkefni á vegum EERA - Evrópska orkurannsóknabandalagsins.

Um Norrænar orkurannsóknir:

Norrænar orkurannsóknir (NEF) er stofnun innan Norrænu ráðherranefndarinnar sem ætlað er að styðja við norrænt orkumálasamstarf.

NEF skapar rannsóknagrundvöll fyrir stefnumótandi ákvarðanir og myndar tengingu milli iðnaðar, rannsókna og stjórnmálafólks. NEF sinnir jafnframt ákveðnu skrifstofuhaldi tengdu orkumálasamstarfi innan Norrænu ráðherranefndarinnar.

Nánari upplýsingar:

Misha Jemsek

+47 91 00 19 55

misha.jemsek@nordicenergy.org

Contact information