Lehtomäki fær norræna lykilstöðu

06.09.18 | Fréttir
Paula Lehtomäki frá Finnlandi var valin nýr framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar 5. september. Lehtomäki tekur til starfa í mars 2019.

Norrænu samstarfsráðherrarnir, undir forystu Margot Wallström frá Svíþjóð, völdu Paulu Lehtomäki framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar þann 5. september. Lehtomäki er nú ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti Finnlands. Hún tekur við af Dagfinn Høybråten sem hættir þegar skipunartími hans rennur út í mars á næsta ári.

Lehtomäki hlakkar til að takast á við nýjar áskoranir.

„Mér finnst norrænt samstarf skipta vaxandi máli og ég hlakka mikið til að fá tækifæri til þess að vera í fullu starfi við að sinna því. Norðurlöndin er nánasta fjölskyldan í heimi þar sem framtíðin er óráðin, bæði fyrir mig persónulega og fyrir Finnland,“ segir Paula Lehtomäki.

Fyrsta konan í starfi framkvæmdastjóra

Paula Lehtomäki var kjörin á finnska þingið árið 1999 og sat á þinginu í 16 ár. Hún varð utanríkis- og þróunarmálaráðherra árið 2003 og umhverfisráðherra árin 2007-2011. Hún sat í Norðurlandaráði árin 1999-2003 og starfaði þar í grannsvæðanefndinni.

Margot Wallström, samstarfsráðherra Svíþjóðar, sem er formaður norrænu samstarfsráðherranna árið 2018 er ánægð með valið.

„Sem talsmaður feminískrar utanríkisstefnu er ég stolt af því að Paula Lehtomäki skuli verða fyrsta konan sem er framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Við munum áfram eiga gott samstarf á norrænum vettvangi!