Manneskjulegar norrænar loftslagslausnir á COP22 í Marrakech

07.10.16 | Fréttir
COP22 Banner
Ljósmyndari
Norden.org
Norrænu löndin verða með sameiginlegan skála á loftslagsviðræðum Sameinuðu þjóðanna (COP22) í Marrakech dagana 7.–18. nóvember. Þar mun fjöldi spennandi viðburða fara fram undir umsjón Norrænu ráðherranefndarinnar, þar sem norrænt sjónarhorn á heildrænar og manneskjulegar grænar lausnir verður í fyrirrúmi.

Borgir og borgarskipulag eru endurtekið þema á COP22 og það mun einnig eiga við um norræna skálann. Meðal annars verður sérstakur þemadagur helgaður sjálfbæru borgarskipulagi og sjálfbærum, snjöllum lausnum í byggingariðnaði, þar sem tillit er tekið til fólks, umhverfis og þjóðhagslegra staðreynda.

Á norrænu þemadögunum verða einnig kunnugleg stef á borð við grænan hagvöxt, orkumál, norðurslóðir, vatn og fjármögnun. Fyrsti þemadagurinn er dagur unga fólksins, sem er skipulagður í samstarfi við rammasamning FN, UNFCCC, þann 7. nóvember.

Dagskrá norræna skálans er að finna á síðunni norden.org/cop22, en þar verður einnig hægt að horfa á beinar útsendingar af viðburðum í skálanum og skoða ýmis áhugaverð rit, fréttir, gagnvirkt efni og ljósmyndir af COP22.

Myllumerkið („hashtag“) sem Norðurlöndin munu nota á Twitter meðan á COP22 stendur er #NNCS (New Nordic Climate Solutions). Einnig er hægt að fylgjast með Norrænu ráðherranefndinni á Facebook og Twitter @Nordic_Climate.

Norrænu löndin eru leiðandi á sviði sjálfbærra loftslagslausna. Norrænn markaður er eins og lifandi rannsóknarstofa þar sem hægt er að láta reyna á nýjar lausnir. Hið norræna samstarf styður við og eykur áhrifin af aðgerðunum. Lesið meira um New Nordic Climate Solutions á norden.org/nncs.