Matilda af Hällström er fulltrúi Norðurlandaráðs í Brussel

15.09.17 | Fréttir
Matilda af Hällström
Ljósmyndari
Astrid Laura Neergaard
Norðurlandaráð hefur opnað skrifstofu í Brussel og ráðið Matildu af Hällström frá Finnlandi til starfa sem ráðgjafa í ESB-málefnum. Matilda er fyrsti starfsmaður ráðsins hjá aðalbækistöðvum ESB í Brussel.

Matilda af Hällström hóf störf í Brussel í september. Meðal verkefna hennar verður að mynda tengslanet sem skipta máli fyrir samstarf Norðurlandaráðs og Evrópuþingsins. Í því felast töluverð samskipti við Evrópuþingmenn Norðurlandanna og aðra norræna aðila í Brussel.

„Hlutverk mitt er að vera fulltrúi Norðurlandaráðs í Brussel og fanga málefni sem skipta máli fyrir Norðurlönd. Eins á ég að miðla upplýsingum milli skrifstofu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn og Brussel. Hafa ber hugfast að ekki eru öll Norðurlöndin aðilar að Evrópusambandinu. Ég er fulltrúi allra landanna, einnig þeirra sem standa utan við sambandið,“ segir Matilda af Hällström.

Hlutverk mitt er að vera fulltrúi Norðurlandaráðs í Brussel og fanga málefni sem skipta máli fyrir Norðurlönd. Eins á ég að miðla upplýsingum milli skrifstofu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn og Brussel.

Matilda af Hällström er enginn nýgræðingur þegar Brusselborg og Evrópusambandið eru hins vegar. Hún hefur verið búsett þar í borg frá því á árinu 2015 þar sem hún hefur unnið hjá ESB-skrifstofu borgaryfirvalda Helsinki og nágrennis, samskiptafyrirtækinu Miltton og fyrir finnska Evrópuþingmanninn Nils Torvalds. Áður starfaði hún á Evrópuskrifstofu finnska utanríkisráðuneytisins í Helsinki.

Alþjóðlega menntuð

Matilda af Hällström lauk tvöföldu háskólaprófi frá University of St. Andrews í Skotlandi og stundaði einnig nám við Helsinkiháskóla og í París. Matilda er fædd og uppalin í Espoo í Finnlandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Norðurlandaráð er með skrifstofu í Brussel. En ýmis mál sem ráðið hefur til meðferðar tengjast ESB og því var ákveðið á þingi ráðsins í Kaupmannahöfn 2016 að opna skrifstofu í Brussel. Um er að ræða tímabundna verkefnaráðningu í eitt ár með hugsanlegri framlengingu til tveggja ára.

Matilda af Hällström mun starfa í nánu samráði við skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.