Menningarlífið á Norðurlöndum á að vera grænt, öflugt og opið

18.03.21 | Fréttir
Northern Network for Performing Arts
Photographer
Sami Sorasalmi

Northern Network for Performing Arts er svæðisbundið samstarfsnet sviðslistafólks sem hefur notið stuðnings frá áætluninni um hreyfanleika í menningargreinum milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Á myndinni má sjá sirkuslistamanninn Emmu Langmoen. 

Mikilvægi menningar fyrir græn umskipti er í brennidepli í kynningu norrænu menningarmálaráðherranna á forgangsmálefnum sínum fyrir samstarf næstu ára. Það er með listrænu frelsi, menningarmiðlun og í samtali sem nýjar lausnir og sjálfbær lífsskilyrði verða til. Menning og miðlar búa til fundarstaði, spyrja nauðsynlegra spurninga og hjálpa okkur að taka á hnattrænum áskorunum.

Menning hefur alltaf gegnt mikilvægu hlutverki í norrænu samstarfi og samstarf á sviði menningarmála var raunar það sem lagt var til grundvallar þegar ráðherranefndin var stofnuð fyrir 50 árum. Í nýrri samstarfsáætlun menningarmálaráðherranna fyrir 2021-2024 stendur metnaður þeirra til þess að menning gegni áfram lykilhlutverki í norrænu samstarfi.

„Sem formaður norræna menningarsamstarfsins er ég ánægð og stolt af því að fá að kynna nýja samstarfsáætlun um menningarstefnu. Menningarsamstarf er driffjöður í grænum umskiptum og í samstarfsáætluninni birtast áherslumál okkar í menningargeira Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin,“ segir Annika Saarikko, vísinda- og menningarmálaráðherra Finnlands og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál árið 2021.

Menningarsamstarfið er einn af driffjöðrum grænna umskipta á Norðurlöndum.

Forgangsmálefni í stefnumótun

Menningarmálaráðherrarnir slá því föstu í samstarfsáætluninni að þeir hyggjast vinna að því að Norðurlöndin séu græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær en það er kjarninn í framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.  Áherslan í starfinu byggir á eftirfarandi forgangsmálefnum sem styðja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar, aðgerðaáætlun og markmið.

  • Græn Norðurlönd: Grænt menningarlíf tryggir kynslóðum samtímans og framtíðarinnar góð lífsskilyrði
  • Samkeppnishæf Norðurlönd: Öflugt lista- og menningarlíf á okkar svæði og utan þess stuðlar að grænum hagvexti
  • Félagslega sjálfbær Norðurlönd: Norrænt menningarlíf sem er opið öllum stuðlar að lýðræði, margbreytileika og lífsgæðum

Miðlar, listir og menning eiga að vera frjáls. Meginreglan um hreyfirými, sameigileg gildi samstarfs um menningarstefnu og sjónarhorn barna og ungmenna, jafnrétti og sjálfbæra þróun eru alltaf samþætt í samstarfinu.

Menningin gegnir lykilhlutverki í norrænu samstarfi og tengir Norðurlandabúa saman þvert á landamæri. Við munum vinna að því að efla norrænt menningarlíf, bæði á Norðurlöndunum og utan þeirra.

Annika Saarikko, vísinda- og menningarmálaráðherra Finnlands og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál

Allt fólk á að fá sömu tækfæri

Í norrænu menningar- og miðlasamstarfi á allt fólk að hafa sömu tækifæri til að tjá sig og taka virkan þátt í menningarlífinu. Tungumálið og menningin skapa skilning, tillit og samkennd sem nær yfir landamæri og oft verða fyrstu tengsl Norðurlandabúa við grannlöndin til gegnum bækur, sjónvarpsseríur og tónlist.

„Menningin gegnir lykilhlutverki í norrænu samstarfi og tengir Norðurlandabúa saman þvert á landamæri. Við munum vinna að því að efla norrænt menningarlíf, bæði á Norðurlöndunum og utan þeirra,“ segir Annika Saarikko, vísinda- og menningarmálaráðherra Finnlands að lokum.

Samstarfsáætluninni á sviði menningarmála er ætlað að auka samkennd, þróun og samstarf í menningargeiranum á öllum Norðurlöndunum. Metnaðurinn stendur til þess að veita nýju lífi í menningararfinn og efla norræna list og menningu án aðgreiningar en það styrkir einnig ímynd Norðurlanda sem sjálfbært, samkeppnishæft og aðlaðandi menningarsvæði. 

 

Hið nýja stafræna rit er skreytt ljósmyndum, textadæmum og teikningum frá mörgum og mismunandi norrænum listamönnum, rithöfundum og verkefnum.