Mikilvægt að fá konur úr hópi innflytjenda út á vinnumarkaðinn

09.05.17 | Fréttir
Norrænu jafnréttismálaráðherrarnir eru á einu máli um að grípa þurfi til aðgerða til að auka atvinnuþátttöku kvenna úr hópi innflytjenda. „Þátttaka á vinnumarkaði er lykillinn að því að konur úr hópi innflytjenda geti séð fyrir sér sjálfar og aðlagast samfélaginu. Þess vegna hefur þessi málaflokkur forgang í norrænu samstarfi,“ segir Solveig Horne, barna- og jafnréttismálaráðherra í Noregi.

Fundur jafnréttisráðherranna fór fram um borð í Hurtigruten milli Svolvær og Tromsø í Noregi. Fundarstjóri var Solveig Horne, jafnréttisráðherra Noregs, þar sem Noregur gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2017.

„Mikilvægasta jafnréttismálið á Norðurlöndum í dag varðar stöðu kvenna sem tilheyra þjóðernisminnihlutahópum og hafa ekki sömu möguleika til samfélagsþátttöku og karlar innan sömu hópa. Ég tel mikilvægt í því sambandi að eiga einnig í samræðu við karlana. Það er þýðingarmikið að karlmenn, ekki síst feður, gangist inn á þau gildi okkar sem lúta að jafnrétti kynjanna. Komið getur upp togstreita milli feðraveldismenningar og okkar frjálsu, norrænu samfélaga, og hana er mikilvægt að ræða,“ segir Karen Ellemann, jafnréttismálaráðherra Dana.

Atvinna lykillinn að farsælli aðlögun

Fundinn sátu einnig Þorsteinn Víglundsson, jafnréttismálaráðherra Íslands, Sara Olsvig, jafnréttismálaráðherra Grænlands, Eyðgunn Samuelsen, jafnréttismálaráðherra Færeyja og fulltrúar stjórnsýslunnar í Finnlandi og Svíþjóð, auk Dagfinns Høybråten, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. 

„Atvinna er án efa lykilatriði fyrir farsæla aðlögun. Ráðherranefndin vill stuðla að miðlun bestu starfshátta og uppbyggingu þekkingar gegnum Aðlögunaráætlunina og nýstofnaða miðstöð upplýsingamiðlunar, sem er á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar.“

Ýmislegt sameiginlegt í norrænu löndunum

„Konur með innflytjendabakgrunn á Norðurlöndum eiga ýmislegt sameiginlegt. Þær eru með minnsta atvinnuþátttöku, minnstar tekjur, minnsta menntun og eru líklegri til að vera á félagslegum bótum en aðrir hópar, segir Sylo Taraku, ráðgjafi hjá hugveitunni Agenda og fulltrúi í Brochmann II-nefnd norsku ríkisstjórnarinnar um málefni innflytjenda.

Norska barna- og jafnréttismálaráðuneytið fól Taraku að rita minnisblað um aðlögun kvenna með innflytjendabakgrunn fyrir Norrænu ráðherranefndina.

Þó að staða innflytjendakvenna á vinnumarkaði kunni að virðast drungaleg er Taraku bjartsýnn á framhaldið.

„Félagslegur hreyfanleiki er mikill á meðal kvenkyns innflytjenda af annarri kynslóð. Á vissum sviðum, svo sem menntun, er hann meiri meðal kvennanna en karlanna,“ segir Sylo Taraku, sem hóf umræðuna á fundinum í dag.

Ráðstefna um hatursorðræðu

Þann 21. júní býður barna- og jafnréttismálaráðherra Noregs, Solveig Horne, til alþjóðlegrar ráðstefnu um hatursorðræðu.

  • Norræn ráðstefna um hatursorðræðu

„Ég fagna því að við skulum hafa rætt aðgerðir gegn hatursorðræðu á ráðherrafundinum. Í hatursorðræðu felst áskorun sem öll norrænu löndin standa frammi fyrir. Okkur ber að standa vörð um tjáningarfrelsið og tryggja áframhaldandi sterka stöðu þess. Jafnframt vitum við að hatursorðræða getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, hópa og samfélagið allt,“ segir Horne.