Niðurgreiðsla jarðefnaeldsneytis og loftslagsbreytingar: Ný skýrsla sýnir mikla möguleika á að draga úr losun

13.02.15 | Fréttir
Miljöförstöring
Ljósmyndari
Photodisc
Ný skýrsla frá Norrænu ráðherranefndinni og verkefninu Global Subsidies Initiative bendir til möguleika á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 6–13%.

Árlega verja ríkisstjórnir heimsins 543 milljörðum bandaríkjadala til að niðurgreiða jarðefnaeldsneyti til neytenda. Með því að afnema slíkar niðurgreiðslur til neytenda má hugsanlega draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu um 6–13% fyrir 2050, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skýrslu um niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis og loftslagsbreytingar sem Alþjóðastofnunin um sjálfbæra þróun (IISD) vann fyrir Norrænu ráðherranefndina.

Margar ríkisstjórnir eru þegar farnar að afnema niðurgreiðslur í ljósi lágs olíuverðs og möguleika á lækkun útgjalda, sem næmi 5–30% fyrir sumar ríkisstjórnir. Skýrslan sýnir hvernig hægt er að áætla skerðingu á losun þjóða með tilliti til framlags þeirra til uppfyllingar rammasamnings SÞ um loftslagsbreytingar (UNFCCC), samkvæmt samþættuðu efnahagslíkani samstarfsverkefnisins um niðurgreiðslur jarðefnaeldsneytis (GSI-IF model).

Skýrslan er liður í alþjóðlegu samstarfsverkefni um niðurgreiðslur jarðefnaeldsneytis (Global Subsidies Initiative) og var samin fyrir Alþjóðastofnunina um sjálfbæra þróun af Laura Merrill, Melissa Harris, Liesbeth Casier og Andrea M. Bassi. Skýrslan var kynnt í tengslum við loftslagsviðræðurnar í Genf þann 10. febrúar.

Hér er hægt að hlaða skýrslunni niður: Fossil-Fuel Subsidies and Climate Change:Options for policy-makers within their Intended Nationally Determined Contributions


Skýrslan er fjármögnuð sem liður í átaksverkefni norrænu forsætisráðherranna um grænan hagvöxt. Fyrsta skýrslan sem kom út á vegum verkefnisins var Reform of Fossil-fuel Subsidies: Nordic Cooperation on fossil-fuel subsidy reform in developing countries - Assessing Options and Opportunities

Nánari upplýsingar um átaksverkefnið um grænan hagvöxt eru í veftímaritinu Green Growth the Nordic Way og á Facebook.