Norðurlandaráð ræddi lýðræðismál við stjórnmálamenn frá Hvíta-Rússlandi

06.05.19 | Fréttir
Jessica Polfjärd som nyvald president för Nordiska rådet på sessionen 2018.

Jessica Polfjärd som nyvald president för Nordiska rådet på sessionen 2018.

Photographer
Johannes Jansson

Jessica Polfjärd, forseti Norðurlandaráðs, var gestgjafi fundarins í Stokkhólmi.

Lýðræði og tjáningarfrelsi var á dagskrá þegar stjórnmálamenn og fulltrúar ýmissa samtaka í Hvíta-Rússlandi heimsóttu sænska þingið í Stokkhólmi á miðvikudaginn. Norðurlandaráð bauð til fundarins.

Fundurinn í Stokkhólmi var framhald á þeirri hefð Norðurlandaráðs að hitta árlega pólitíska leiðtoga frá Hvíta-Rússlandi. Mættir voru bæði fulltrúar stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi og þingmenn ásamt fulltrúum frjálsra félagasamtaka.

„Þessir fundir milli aðila frá Hvíta-Rússlandi eru mikilvægir að mati Norðurlandaráðs og við leggjum upp úr því að bjóða fram vettvang þar sem þeir geta komið saman. Við viljum vinna að lýðræðislegri þróun í Hvíta- Rússlandi og að því að viðhalda samtalinu sem á sér stað milli aðila,“ segir Jessica Polfjärd, forseti Norðurlandaráðs, sem var gestgjafi fundarins.

Hún lagði áherslu á að staðan í Hvíta-Rússlandi væri enn alvarleg.

„Við höfum miklar áhyggjur af því að sótt sé að funda- og félagafrelsi og tjáningarfrelsi ásamt þeirri ógn sem steðjar að fjölmiðlum. Við höfum einnig áhyggjur af því hvernig farið er með jaðarkynverundarhópa.“ Sumar skýrslur benda til þess að Hvíta-Rússland sé meðal þeirra landa sem verst eru fyrir samkynhneigða.

Hvíta-Rússland getur nálgast Norðurlönd

Jessica Polfjärd lagði áherslu á að Hvíta-Rússland væri nálægt Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum landfræðilega og einnig að vissu leyti menningarlega og hún benti á að stytta mætti bilið enn frekar ef landið þróaðist meira í átt til lýðræðis.

Fulltrúar Eystrasaltsríkjaráðsins (samstarfsvettvangur hinna þriggja þinga Eystrasaltsríkjanna) og fulltrúar þingmannaráðstefnu Eystrasaltsríkjanna, BSPC og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Vilníus tóku einnig þátt í fundinum.

Fulltrúar Norðurlandaráðs voru Jessica Polfjärd (flokkahópi hægrimanna), Gunilla Carlsson varaforseti (flokkahópi jafnaðarmanna), Erkki Tuomioja, (skýrslugjafi Norðurlandaráðs um Hvíta-Rússland, flokkahópi jafnaðarmanna), Pyry Niemi (flokkahópi jafnaðarmanna) Hans Wallmark (flokkahópi hægrimanna) og Jorodd Asphjell (flokkahópi jafnaðarmanna og forseti BSPC).

Contact information