Norðurlandaráð tekur fyrir öfgaskoðanir

10.03.15 | Fréttir
Ved stranden 18
Photographer
Ane Cecilie Blichfeldt
Baráttan gegn öfgaskoðunum verður á dagskrá Norðurlandaráðs á fundum ráðsins og örþingi í Kaupmannahöfn 25.-26. mars næstkomandi. Á miðvikudaginn verður haldinn sameiginlegur fundur þar sem rætt verður um breytt tengsl Norðurlanda og Rússlands.

Sameiginlegi fundurinn um Rússland og Úkraínu verður haldinn seinni part miðvikudagsins 25. mars í landsþingssal danska þingsins í Kristjánsborgarhöll.

Fundunum verður fram haldið á fimmtudag þegar haldinn verður upplýsingafundur um hryðjuverkaárásirnar í Kaupmannahöfn og áhrif þeirra á stefnu Dana í öryggismálum og varðandi útbreiðslu öfgaskoðana. Þingfundurinn hefst með umræðu um það hvernig norrænt samstarf geti unnið gegn öfgaskoðunum. Einnig munu fjórar af nefndum Norðurlandaráðs halda fundi fyrir hádegi um útbreiðslu öfgaskoðana.

Í janúar var myndað samstarfsnet norrænna ráðherra til að vinna gegn mismunandi tegundum öfgaskoðana.

Blaðamannafundur með forseta Norðurlandaráðs og fulltrúum norrænu flokkahópanna verður haldinn síðdegis 26. mars í húsi norræna samstarfsins í Kaupmannahöfn. Heimilisfangið er Ved Stranden 18. Viðfangsefnið verður norrænt samstarf til að vinna gegn öfgaskoðunum.

Norðurlandaráð ætlaði upphaflega að halda vorfundina og örþingið í Brussel. Ástandið í öryggismálum gerði skipulag fundanna í Evrópuþinginu svo flókið að ákveðið var að halda þá í staðinn í Kaupmannahöfn.

Norðurlandaráð er þing opinbers samstarfs Norðurlanda. Dagana 25.-26. mars funda 87 þingmenn Norðurlandaráðs frá öllum ríkjum Norðurlanda auk Grænlands, Færeyja og Álandseyja í flokkahópum, nefndum og á þingfundi. Fylgist með umræðunum á #nrpol og á norden.org/NRmars