Norrænt samstarf á þjóðfundum sumarsins

24.05.17 | Fréttir
Britt Lundberg
Photographer
Magnus Frderberg/norden.org
Í sumar munu Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin sem fyrr koma norrænum málefnum á dagskrá á þjóðfundum sem haldnir verða í löndunum. Margar umræðnanna á fundunum munu snerta á þeirri framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna að Norðurlönd verði samþættasta svæði í heimi.

Tjald Norðurlanda á Folkemødet á Borgundarhólmi, 15.–18. júní

Forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg frá Álandseyjum, tekur þátt í fjórum af þjóðfundum sumarsins. Fyrst verður Britt Lundberg á Borgundarhólmi í Danmörku, þar sem hún tekur þátt í umræðum með yfirskriftinni „Er Norden verdens mest integrerede region?“ (Eru Norðurlönd samþættasta svæði í heimi?) Í Tjaldi Norðurlanda verður einnig rætt hvaða lærdóm megi draga af þáttaröðinni SKAM, en meðal þátttakenda í umræðunum verða fyrrum menningarmálaráðherra Dana, Bertel Haarder, og Asil Al-Asadi, sem mun fara með hlutverk Sönu í uppfærslu danska leikhússins AvenyT á SKAM. Rithöfundarnir Kirsten Thorup frá Danmörku og Vigdis Hjorth frá Noregi, sem báðar eru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár, leggja einnig leið sína í Tjald Norðurlanda.

Dagur Norðurlanda í Almedalen í Visby á Gotlandi, 3. júlí

Á Degi Norðurlanda verða mörg af þýðingarmestu málum samtímans til umræðu: Eigum við að una sívaxandi bili á milli ríkra og fátækra? Hvað þarf til þess að auka umhverfisfjármögnun? Verður komist hjá því að hliðarsamfélög myndist? Hvernig getum við aukið atvinnuþátttöku kvenna af erlendum uppruna? Finnski skopmyndateiknarinn Kasper Diem leggur orð í belg eins og honum einum er lagið.

Peter Hultqvist (S), varnarmálaráðherra Svía, verður aftur viðstaddur fundinn í ár, líkt og Ylva Johansson (S) vinnumálaráðherra. Meðal annarra þátttakenda eru: Jan Pörsken, ráðherra aðlögunarmála í sambandslandinu Hamborg, Johan Schück frá dagblaðinu Dagens Nyheter, Connie Hedegaard, fyrrum framkvæmdastjóri ESB í loftslagsmálum, Britt Lundberg, forseti Norðurlandaráðs og Henrik Meinander prófessor. 

SuomiAreena í Pori í Finnlandi 10.–14. júlí

Norðurlönd og norrænt samstarf er í brennidepli á stjórnmálavikunni SuomiAreena í Finnlandi. Finnland og Norðurlönd í brennidepli standa fyrir fjölda norrænna umræðna, bæði með formlegu og óformlegu sniði, en einnig skemmtidagskrá í samstarfi við aðrar norrænar stofnanir þar sem m.a. verður norrænt kaffihús og spurningakeppni með norrænu þema

Forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg, og Juho Eerola varaforseti taka m.a. þátt í umræðum með yfirskriftinni „Tillsammans gör vi Norden till världens mest integrerade region?“ (Getum við tekið höndum saman um að gera Norðurlönd að samþættasta svæði í heimi?) Aðrar umræður munu fjalla um traust, sem er eitt af grundvallargilfum Norðurlanda, um Norðurlönd og Evrópu og um ósjálfbæra þróun sem ógn við hin norrænu samfélög okkar.

Alla vikuna verður norrænn skáli með upplýsingagjöf og dagskrá á Medborgartorget.

Arendalsvika, Arendal í Noregi, 14.–19. ágúst

Norðurlönd verða áberandi á Arendalsvikunni þetta síðsumar. Forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg, tekur þátt í tveimur umræðum: „Er Norden verdens mest integrerte region?“ (Eru Norðurlönd samþættasta svæði í heimi?) og „Nordens plass i Europa“ (Staður Norðurlanda í Evrópu), sem Frank Bakke-Jensen, norrænn samstarfsráðherra Noregs, tekur einnig þátt í. Lundberg verður einnig viðstödd þegar skólabörn í Arendal hitta höfunda sem tilnefndir eru til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Norrænt samstarf á sviðum orku- og varnarmála verður einnig til umræðu, en Arendalsvikunni lýkur á spennandi kappræðum ungs stjórnmálafólks. Þar verða fulltrúar frá Norðurlandaráði æskunnar og Sambandi ungmennadeilda Norrænu félaganna, auk tveggja norskra ungra stjórnmálamanna.

Norræna félagið, Norræna upplýsingaskrifstofan í Suður-Noregi, Halló Norðurlönd og Norrænar orkurannsóknir leggja mikið af mörkum til margra af þessum viðburðum.

Norræni básinn verður opinn daglega meðan á Arendalsvikunni stendur, beint fyrir utan menningarhúsið í Arendal.

Fundur fólksins á Akureyri 8.–9. september

Fundur fólksins fer nú fram í fyrsta sinn utan Reykjavíkur, að þessu sinni á Akureyri. Norðurlönd í brennidepli / Ísland standa fyrir norrænni dagskrá á Fundi fólksins.