Nýjar leiðir í umræðunni um norrænt sambandsríki
Norðurlandaráð skerpir á þessu ári stjórnmálaumræðuna á Norðurlandaráðsþingi Nýlunda er meðal annars að á þriðjudaginn verður haldin umræða um nýjar nefndartillögur áður en þær verða sendar í nefnd. Sömuleiðis verður í fyrsta sinn haldin sérstök umræða um mál sem eru ofarlega á baugi, að þessu sinni um öryggis- og varnarmál. Gestaræðumaður verður Thorvald Stoltenberg.
Þingmannatillagan um norrænt sambandsríki verður tekin til umfjöllunar við umræðuna um nýjar nefndartillögur á þriðjudaginn sem verður haldin að loknum leiðtogafundinum með forsætisráðherrum Norðurlanda.
– Við teljum að umræða sem byggir á skýrum tillögum um sambandsríki/ríkjasamband geti rutt veginn fyrir þróun stjórnskipulegra málefna á Norðurlöndum, segja þingmennirnir sem eru úr flokkahópum jafnaðarmanna, miðjumanna og vinstrisósíalista og grænna.
Norræn stuðningur við Palestínustefnu Svía og Íslendinga?
Við umræðuna ætlar Flokkahópur vinstrisósíalista og grænna að leggja fram tillögu um að Norðurlönd viðurkenni Palestínu sem sjálfstætt ríki.
– Meira en 130 lönd hafa viðurkennt sjálfstæði Palestínu, nú síðast Ísland og Tæland. Svíar hafa jafnframt ákveðið að viðurkenna sjálfstæðið. Öll norrænu ríkin ættu nú að fara að fordæmi Íslendinga og Svía til að styðja þróun sjálfstæðs Palestínuríkis sem getur dafnað við hlið Ísraela – bæði tvö ríkin sem jafnréttháir og friðsamir grannar, segir formaður Flokkahóps vinstrisósíalista, Høgni Hoydal.
Þríhliða viðræður Norðurlanda
Flokkahópur jafnaðarmanna leggur fram tþingmannatillögu um norrænar þríhliða viðræður. Þrátt fyrir að margar ákvarðanir séu nú teknar á vettvangi Evrópusambandsins telur hópurinn að til mikils sé að vinna að gefa löndunum á ný kleift að eiga viðræður á norrænum vettvangi.
– Það hefur þrátt fyrir allt gildi að löndin geti átt viðræður á norrænum vettvangi til að leita í sameiningu leiða til að stuðla að öflugum og fyrirsjáanlegum vinnumarkaði á Norðurlöndum. Það getum við síðan notað sem grundvöll til að leysa vandamál á ESB/EES-svæðinu í framtíðinni, segir Phia Andersson, nýkjörinn varaforseti Norðurlandaráðs, sem er ein þeirra sem hefur haft frumkvæði að tillögunni í Flokkahópi jafnaðarmanna.
Norðurlandaráðsþing hefst í sænska þinginu á þriðjudag með norrænum leiðtogafundi milli þingmanna í Norðurlandaráði og allra forsætisráðherra Norðurlanda. Þingið, sem stendur til 30. október, er stærsti vettvangur ársins fyrir umræður milli þingmanna, forsætisráðherra og fagráðherra frá öllum Norðurlöndum. Hægt er að fylgjast með þinginu beint á norden.org/session2014 og á Twitter undir myllumerkjunum #nrsession og #nrpol.