Nýjar norrænar næringarráðleggingar: ritið í heild og einstakir kaflar nú aðgengilegt á rafrænu formi

14.03.14 | Fréttir
Reduce you foodprint
Photographer
Lii Ranniku
Ný útgáfa af ritinu Nordic Nutrition Recommendations, NNR 2012, er nú fáanleg í heild sinni, bæði sem pdf-skjal með opnum aðgangi og sem rafbók. Einnig er nú í fyrsta sinn hægt að festa kaup á einstökum köflum ritsins, sem geymir bæði grundvallarviðmið ráðlags mataræðis í hverju Norðurlandanna og undirstöðuatriði næringarfræðikennslu á háskólastigi í löndunum.

NNR 2012 byggir á vinnu rúmlega hundrað sérfræðinga undir forystu vinnuhóps á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í fæstum tilvikum hafa nýjar niðurstöður gefið ástæðu til að endurskoða fyrri ráðleggingar, heldur hafa þær þvert á móti skotið undir þær frekari stoðum. Í NNR 2012 er áhersla þó í auknum mæli lögð á heildarmataræði, gæði hráefnis og uppruna einstakra næringarefna, fremur en að einblínt sé á t.d. hlutfall fitu og kolvetna fæðunnar sem við leggjum okkur til munns.

„Það getur verið erfitt að átta sig í öllum þeim hafsjó mataræðisráðlegginga sem á okkur dynur dagsdaglega. Norrænar næringarráðleggingar veita neytendum nauðsynlega þekkingu um mataræði til að styðjast við, auk þess sem ritið ber því fagurt vitni hverju Norðurlöndin geta áorkað með samvinnu,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, af tilefni útgáfunnar.

NNR 2012 er helsta heimildarrit sem stuðst er við þegar næringarráðleggingar eru gerðar í löndunum og ennfremur mikilvægasta verkfærið sem við höfum til að leggja mat á hvort almenningur borðar nógu næringarríka fæðu. NNR 2012 er einnig hornsteinn samnorræna matvælamerkisins Skráargatsins, sem ætlað er að leiðbeina neytendum um bestu og heilnæmustu kosti á markaðnum.

Fyrstu þrír kaflar ritsins og meginniðurstöður voru birtir í október 2013. Ritið er nú aðgengilegt í heild. Pantið ritið á vefnum: www.norden.org/nnr