Nýkjörinn forseti Norðurlandaráðs vill uppræta stjórnsýsluhindranir

03.11.16 | Fréttir
Britt Lundberg och Juho Eerola
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Að uppræta stjórnsýsluhindranir er mikilvægasta málefni næsta árs fyrir Britt Lundgren, nýkjörinn forseta Norðurlandaráðs.

Britt Lundberg frá Álandseyjum var kjörin forseti Norðurlandaráðs á þingi ráðsins í Kaupmannahöfn á fimmtudag. Lundberg hlaut einróma kosningu og það var kátur nýr forseti sem yfirgaf þingsalinn að þingi loknu.

„Þetta er auðvitað stórkostlegt, að vera kjörin til þessa embættis og njóta traustsins sem því fylgir,“ sagði Britt Lundberg.

Hvað málefni verða þér mikilvægust í forsetatíð þinni?

„Fyrir mér er stærsta forgangsmálið að vinna að því að uppræta stjórnsýsluhindranir. Það er afar mikilvægt að tryggja frjálsa för borgara á Norðurlöndum.

Ég kýs að sjá möguleika í stað vandamála, og tel að við okkur blasi fjöldi möguleika. Áskorunin felst í því að forgangsraða, ná að gera allt sem hugurinn stendur til og finna til þess fjármagn.

Sér möguleika í stað vandamála

Britt Lundberg vekur athygli á þeirri staðreynd að íbúar Norðurlanda eru alls 26 milljónir og að saman eru Norðurlönd tólfta stærsta hagkerfi heims. Að hennar mati er frjáls för grundvallaratriði þegar kemur að starfsemi fyrirtækja, vinnumarkaði, námi og lífeyri.

Hvar liggja stærstu áskoranirnar?

„Ég kýs að sjá möguleika í stað vandamála, og tel að við okkur blasi fjöldi möguleika. Áskorunin felst í því að forgangsraða, ná að gera allt sem hugurinn stendur til og finna til þess fjármagn.“

Að skapa virðisauka

Hverju myndir þú vilja breyta í norrænu samstarfi ef þú hefðir frjálsar hendur?

„Ég myndi vilja virkja sameiginlegan kraft Norðurlanda í meira mæli – nýta það hve stór við erum saman og að við getum í raun verið umheiminum gott fordæmi, og einnig skapað virðisauka fyrir öll löndin og sjálfsstjórnarsvæðin með því að virkja Norðurlönd til að beita sér sameiginlega.“

Britt Lundberg er fædd árið 1963 og er formaður flokkahóps miðjumanna í Norðurlandaráði. Hún er þingmaður fyrir Miðjuflokkinn (Centern) á Lögþingi Álandseyja. Lundberg er menntaður kennari. Hún tekur við forsetaembættinu um áramótin, um leið og Finnland tekur við formennsku í Norðurlandaráði.

Britt Lundberg mun gegna embætti forseta í eitt ár og tekur við því af Henrik Dam Kristensen frá Danmörku.

Á formennskuári sínu, 2017, hefur Finnland þrjú áherslusvið: Menntun á Norðurlöndum, Hrein orka á Norðurlöndum og Tengslanet á Norðurlöndum. Í myndskeiðinu að neðan talar Britt Lundberg um forgangsmál Finnlands.