Óboðnar ostrur auka líffræðilega fjölbreytni við strandlengjuna

17.10.22 | Fréttir
Stillahavsostron
Photographer
Åsa Strand, Svenska Miljöinstitutet
Vandræðagemlingurinn Kyrrahafsostran hefur margvísleg jákvæð áhrif á loftslagsumskipti. Þetta sýnir ný úttekt norrænna vísindamanna.

Kyrrahafsostran er oft álitin til vandræða. Tegundin er á listum norrænu landanna yfir framandi tegundir og er því skilgreind sem óæskileg í norrænni náttúru. Ekki er hægt að útrýma þessari ágengu ostrutegund. Auk þess að eyðileggja marga vinsæla baðstaði á Norðurlöndum með hárbeittri skel sinni er einnig hætta á að með Kyrrahafsostrunni berist sjúkdómar og sníkjudýr í þá skeldýrastofna sem fyrir eru. Nú sýna rannsóknir hins vegar að hún er, og getur verið, norræn auðlind, ekki síst þegar kemur að loftslagsumskiptum.

Verkfræðingur í líffræðilegri fjölbreytni

Grófgerð skel Kyrrahafsostrunnar skapar lífsskilyrði og felustaði fyrir ungviði fiska, botndýr og minni fisktegundir. Því er líffræðileg fjölbreytni meiri á þeim svæðum þar sem ostran hefur náð fótfestu. Jafnframt virkar skelin sem kolefnisviðtaki. Kyrrahafsostrurif skapa lifandi haf og binda mikið magn kolefnis. Þannig má líta á ostruna sem verkfræðing í líffræðilegri fjölbreytni og verkfæri í vinnu norrænu landanna að því að draga úr kolefnislosun. Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu samstarfsverkefnisins Scandinavian Network on Oyster Knowledge (SNOK) sem fjármagnaða er af Norrænu ráðherranefndinni .

„Þar sem þetta er óæskileg tegund heyrast oft þau rök að hún ógni líffræðilegri fjölbreytni. Í raun höfum við engar sannanir fyrir því. Hins vegar munu ostruþyrpingar eða -rif skapa lífsskilyrði fyrir margar aðrar tegundir sem getur haft jákvæð staðbundin áhrif,“ segir Stein Mortensen, verkefnisstjóri verkefnisins og vísindamaður við hafrannsóknarstofnunina í Bergen.

Kyrrahafsostran var flutt inn til Danmerkur til ræktunar árið 1980 en það var fyrst árið 2006 sem alvarlegir hlutir fóru að gerast.Straumar báru ostruna til Bohuslän í Svíþjóð og Óslóarfjarðar í Noregi. Nú skipta ostrurnar milljónum við strendur Norðurlanda.

Ostrur á kósíkvöldinu

„If you can‘t beat them – eat them“. Þetta eru skilaboðin frá SNOK. Nú þegar er hægt að kaupa Kyrrahafsostru í Svíþjóð, Danmörku og Noregi auk hinnar flötu ostru. Á alþjóðavísu er eftirspurnin mikil. Nú þarf að auka vinsældir hennar á Norðurlöndum.

„Þegar Kyrrahafsostran er af miklum gæðum er mjög vel hægt að nýta hana með ýmsum hætti við matargerð. Hún hefur sætan keim sem mörgum fellur vel. Mörg telja flötu ostruna betri en Kyrrahafsostruna, einkum ef neyta á hennar hrárrar. En það þarf að gæta vel að því ofnýta ekki stofn flötu ostrunnar. Þess vegna er Kyrrahafsostran góður valkostur,“ segir Stein Mortensen.

Verslun með Kyrrahafsostru myndi skapa atvinnutækifæri og blása nýju lífi í sjávarbyggðir. Það er góður kostur að velja Kyrrahafsostru til matar þar sem kolefnisspor hennar er lágt, hún er framleidd í heimabyggð, er holl og skilar sínu til samfélagsins. Það á ekki síst við um ferðaþjónustu en boðið er upp á ostrusafaríferðir með smökkun í bæði Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Norræn viðmið

Til þess að Kyrrahafsostran nái fótfestu á norrænum matvælamarkaði þarf að leysa ákveðin lögfræðileg og praktísk atriði, svo sem varðandi eignarhald á ostrunum, reglur um vinnslu og geymslu og hvernig tryggja skuli gæði matvælanna. Einnig er þörf á sameiginlegum norrænum aðferðum við kortlagningu og eftirlit á ástandi Kyrrahafsostrustofnsins.

„Ostrur geta borið nóróveiru og þörungaeitrun og því er algjört lykilatriði að salan fari í gegnum fyrirtæki sem hafa viðurkennt húsnæði með hreinsun í hreinu vatni og sem uppfylla kröfur varðandi eftirlit með þörungaeitrun og örverufræði,“ segir Stein Mortensen.

Þörf á frekari rannsóknum

Þriðja verkefninu sem Norræna ráðherranefndin fjármagnar er nú lokið. Samstarf norrænna vísindamanna að kortlagningu Kyrrahafsostrunnar heldur þó áfram. Frá því samstarfið hófst árið 2007 hefur rannsóknarteymið fylgst með Kyrrahafsostrunni og sýnt fram á hvernig þessi nýbúi getur orðið að norrænni auðlind. Nýjasta skýrslan sýnir að Kyrrahafsostran geti haft jákvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Frekari rannsókna er þó þörf á áhrifum hennar á norræn hafsvæði.

Um SNOK og verkefnið

Þegar ljóst var að Kyrrahafsostran hafði náð fótfestu við strendur Noregs og Svíþjóðar árið 2007 stofnuðu norrænir vísindamenn til samstarfsins Scandinavian Network on Oyster Knowledge (SNOK).Alls hafa verið unnin þrjú verkefni með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar til að afla þekkingar á áhrifum ostrunnar á norræn strandsvæði. Kortlagning hefur hjálpað til við að leiða í ljós hvernig nota megi þessar ostrur sem nýja norræna auðlind. Árið 2019 kom út skýrsla þar sem tekin var saman þekking á tegundinni á Norðurlöndum og kynnt voru ráð og lausnir varðandi ýmis mál í tengslum við vinnslu og nýtingu Kyrrahafsostrunnar ásamt grundvelli fyrir ostruferðamennsku.