Opinn fjarfundur samstarfsráðherranna um Covid-19 og Norðurlönd

19.11.20 | Fréttir
Kaj Leo Holm Johannesen
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Kreppan sem nú stendur yfir hefur valdið miklu álagi á stjórnvöld einstakra ríkja, heilbrigðiskerfi, atvinnulíf og einstaklinga á Norðurlöndum. Kreppan af völdum Covid-19 hefur einnig haft áhrif á norrænt samstarf. Þess vegna bjóða formennskulöndin, Danmörk, Færeyjar og Grænland, til stafrænna pallborðsumræðna um Covid-19 kreppuna og er það liður í formennsku þeirra í Norrænu ráðherranefndinni 2020

BEINT frá umræðum föstudaginn 27. nóvember kl. 12.00

Kreppan af völdum Covid-19 hefur haft áhrif á líðan okkar og samfélag á Norðurlöndum og einnig reynt á norrænt samstarf. „Í þessum pallborðsumræðum ætlum við að læra af hinni stormasömu tilveru árið 2020 og sjá hvar samstarfið hefur verið til góðs og hvar hafa komið upp erfiðleikar,“ segir Kaj Leo Holm Johannesen, samstarfsráðherra Færeyja sem opnar fundinn. Covid-19 er ný staða, ekki bara á Norðurlöndum heldur í öllum heiminum, og stjórnvöld hafa neyðst til þess að varða leiðina um leið og hún er gengin. Þannig er ekki til neitt handrit til að fylgja þegar tekist er á við kreppuna sem nú stendur yfir og norrænar ríkisstjórnir og þingmenn hafa þurft að finna nýjar lausnir á ófyrirsjáanlegum áskorunum. Með umræðunum hyggst formennskan beina sjónum að þessu með það fyrir augum að safna reynslu sem nýta má áfram í norrænu samstarfi og þegar taka þarf á kreppu.

 

Samstarf á fleiri sviðum en einnig áskoranir við landamæri 

„Unnið er saman og reynslu miðlað á mörgum sviðum en það eru einnig fyrir hendi áskoranir við landamæri og ástæða er til þess að skoða á hvaða sviðum sé hægt að styrkja samstarfið,“ segir færeyski skipuleggjandinn, utanríkis- og menningarmálaráðuneytið, sem fyrir hönd formennskunnar leggur línurnar fyrir stafrænar pallborðsumræður milli allra norrænu samstarfsráðherranna, forsætisnefndar Norðurlandaráðs og áheyrenda.

 

Við verðum að læra af hinni stormasömu tilveru árið 2020 og sjá hvar samstarfið hefur verið til góðs og hvar hafa komið upp erfiðleikar.

 

Kaj Leo Holm Johannesen, samstarfsráðherra Færeyja