Orkumál ofarlega á dagskrá á þingi Norðurlandaráðs

20.10.17 | Fréttir
Jorma Ollila
Jorma Ollila, fyrrum forstjóri Nokia, verður viðstaddur þing Norðurlandaráðs í Helsinki mánaðamótin október-nóvember. Þar mun hann kynna skýrslu sína um norrænt orkumálasamstarf á ráðstefnu í Litla þinginu (Lillla parlamentet) þann 30. október.

Ráðstefnan hefur yfirskriftina Från stark till starkare – mer energisamarbete håller Norden i världstopp („Öflugt verður öflugra – aukið samstarf um orkumál veitir Norðurlöndum heimsforystu“). Þar verður áhersla lögð á þann ávinning sem norrænu löndin geta haft af auknu samstarfi um orkumál. Skýrsla Jorma Ollila var unnin að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar og birt í sumar. Í henni leggur Ollila fram 14 tillögur að því hvernig þróa megi samstarfið næstu 5–10 árin.

Margar tillagnanna falla einnig undir starfssvið Norðurlandaráðs.

„Norrænt samstarf á sviði orkumála vitnar um góðan árangur sem oft er litið til sem fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi. Við á Norðurlöndum erum leiðandi á heimsvísu á sviði grænnar orku en ef við hyggjumst vera það áfram þurfum við að efla samstarfið enn frekar,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg, sem flytur opnunarávarp um græna orku og Norðurlönd á ráðstefnunni.

Norrænt samstarf á sviði orkumála vitnar um góðan árangur sem oft er litið til sem fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi. Við á Norðurlöndum erum leiðandi á heimsvísu á sviði grænnar orku en ef við hyggjumst vera það áfram þurfum við að efla samstarfið enn frekar.

Meðal annarra þátttakenda á ráðstefnunni eru Kimmo Tiilikainen, orkumálaráðherra Finnlands, Andris Piebalgs, orkumálastjóri framkvæmdastjórnar ESB, Oluf Ulseth, framkvæmdastjóri Energi Norge og Hans Jörgen Koch, framkvæmdastjóri Norrænna orkurannsókna.

Ráðstefnan er liður í 69. þingi Norðurlandaráðs og fer hún fram daginn áður en þingið verður sett formlega. Viðburðurinn er opinn þeim blaðamönnum sem hafa skráð sig á þingið. Þinginu lýkur 2. nóvember.

  • Blaðamenn geta skráð sig hér fram til 27. október kl 14:00 (að dönskum tíma).