Pabbar peppa pabba í nýrri norrænni herferð

05.11.19 | Fréttir
Pappor som vill dela föräldraledigheten lika
Ljósmyndari
Anna Rosenberg
Gerðu eins og forseti Íslands og sænski rafvirkinn Silva – sýndu að þú ert #DadOnBoard! Hugsunin að baki átakinu #DadOnBoard er að feður séu öðrum feðrum hvatning til þess að skipta foreldrahlutverkinu jafnt. Átakið hefst í dag og stendur fram til 19. nóvember sem er alþjóðlegur dagur karla. Þann 14. nóvember kemur út skýrslan State of Nordic Fathers og þá verður haldinn umræðufundur um föðurhlutverkið í Kaupmannahöfn.

Birtu hversdagsmynd af þér og barninu þínu á samfélagsmiðli og segðu frá því á hvern hátt fæðingarorlof skiptir máli.

Þú getur orðið öðrum feðrum hvatning til þess að taka stærri hlut af fæðingarorlofinu og þú getur nýtt tækifærið til þess að hvetja norrænu ríkisstjórnirnar til þess að stuðla að jafnrétti gagnvart foreldrahlutverkinu.

Í lok átaksins lofum við hjá Norrænu ráðherranefndinni að miðla sögum norrænu feðranna og hvatningum þeirra til ríkisstjórnanna.

Taka fimmtung fæðingarorlofsdaganna

Norrænir pabbar eru bestir í heimi í því að taka fæðingarorlof með litlu börnunum sínum. En þrátt fyrri að foreldrum gefist í flestum tilvikum kostur á að skipta fæðingarorlofinu jafnt á milli sín þá taka norrænir feður að meðaltali aðeins 20 prósent orlofsins (2017).

Hvað hindrar feðurna í að skipta fæðingarorlofsdögunum jafnt milli sín og maka sinna?

Þetta er ein þeirra spurninga sem lögð var fyrir 7.500 Norðurlandabúa í tengslum við skýrsluna State of Nordic Fathers sem kemur út 14. nóvember.

Hittið forseta Íslands á umræðufundi um föðurhlutverkið!

Sama dag verður haldinn umræðufundur í miðstöð Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn þar sem pallborð eingöngu er skipað körlum leitar svara við því hvað kemur í veg fyrir að karlar taki ábyrgð á börnum og heimilisstörfum til jafns við konur.

Pallborðið skipa

Guðni Jóhannesson, faðir fimm barna og forseti Íslands,

Silva Eiseb Söderstrand, faðir og rafvirki,

Bjarne Corydon, faðir og ritstjóri viðskiptablaðsins Børsen,

Ché Nembhard, verkefnastjóri skýrslunnar State of Nordic Fathers,

Pelle Hvenegaard, faðir, leikari og rithöfundur, og

Thomas Blomqvist, jafnréttismálaráðherra Finnlands.

Umræðunum stjórnar Adam Holm, faðir og blaðamaður

Stór rannsókn á norrænum feðrum

Skýrslan State of Nordic Fathers var unnin af Norrænu ráðherranefndinni í samstarfi við sænsku samtökin Män og alþjóðlegu samtökin Promundo.

Promundo hefur gefið út skýrsluna State of the World’s Fathers 2019 sem byggir á rannsóknum, viðtölum og nýjum athugunum á 12.000 manns í sjö löndum.

Í alþjóðlegu skýrslunni kemur meðal annars fram að enn sé ekkert land í heiminum þar sem konur og karlar skipta ógreiddum heimilis- og umönnunarstörfum jafnt.