Ráðherrar kalla stráka og karla til leiks fyrir jafnrétti

16.05.18 | Fréttir
Nordiska jämställdhetsministrarnas möte maj 2018
Photographer
Jessica Gow
Virkja verður stráka og karla í jafnréttisstarfi og hnika við stöðluðum karlmennskuímyndum. Jafnréttisstarf sem setur spurningarmerki við hamlandi karlmennskuímyndir er báðum kynjum í hag og samfélaginu öllu. Framlag til jafnréttismála er góð fjárfesting fyrir alla.

Þetta voru niðurstöður umræðna norrænu jafnréttisráðherranna þegar þeir funduðu í Stokkhólmi 16. maí s.l. Fundurinn fór fram í tengslum við fjórðu alþjóðaráðstefnuna um karla og jafnrétti, ICMEO, sem Svíar stóðu fyrir að þessu sinni. Ráðstefnan fjallaði um hvernig breytingar á félagslegri ímynd og staðalmyndum geta beint athyglinni að strákum og körlum og framlagi þeirra til jafnréttismála.

Lena Hallengren, jafnréttisráðherra Svíþjóðar, benti á mikilvægi þess að karlar og strákar létu jafnréttismál sig varða og að karlmennskumál væru fléttuð inn í almennt jafnréttisstarf.

„Með því að hnika við karlmennskuímyndum greiðum við fyrir jafnrétti sem veitir öllum betri tækifæri. Þetta er ekki síst mikilvægt í starfi með ungu fólki. Aukið jafnrétti í heiminum er langhlaup sem alltaf verður að miða áfram. Jafnrétti verður ekki til af sjálfu sér, við verðum stöðugt að leggja hönd á plóg. Ef við stöldruð við er hætt við því að afturför verði í jafnréttismálum,“ segir Lena Hallengren, jafnréttisráðherra Svíþjóðar, og heldur áfram:

„Breyttar karlmennskuímyndir geta aukið öryggi í samfélaginu, dregið úr ofbeldi, bætt heilsu íbúanna, jafnað stöðuna í nánum samböndum og hrist upp í kynjaskiptingu á vinnumarkaði. Kynjaskiptingin á norrænum vinnumarkaði er ein ástæðan fyrir launamun kvenna og karla.“

Alls staðar á Norðurlöndum er að einhverju leyti minnst á „karla og jafnrétti“ í landsbundinni jafnréttismálastefnu. Löngum hefur verið bent á að jafnrétti eigi einnig við um karla en sú rödd er nú skýrari en áður. Jafnrétti er fjöður í hatti Norðurlandaþjóða og önnur lönd vilja heyra um reynslu okkar af jafnréttisstarfi. Jafnrétti er grunnstoð norræna velferðarkerfisins og varðar réttlæti og lýðræði en mikilvægi jafnréttis er ekki síður efnahagslegs eðilis.

Ný skýrsla sem OECD vann að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar sýnir að fyrir tilstilli kynjajafnréttis hafa vergar þjóðartekjur á íbúa aukist stórlega í öllum löndunum. Nær átta af tíu norrænum konum eru á vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka kvenna skýrir um 10–20 prósent af vergum þjóðartekjum á íbúa á Norðurlöndum á undanförnum 40–50 árum.

„Ef konur á Norðurlöndum færu í fullt starf í stað hlutastarfa myndi hagvöxturinn aukast um 15-30 prósent af vergum þjóðartekjum á íbúa,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

OECD-skýrslan „Is the Last Mile the Longest?“ bendir þó á að á Norðurlöndum hafi enn ekki tekist að vinna á kynjaskiptingu vinnumarkaðarins, brúa launamun kynjanna eða skipta hlutastörfunum jafnar á milli karla og kvenna.

„Ef við eigum að halda út síðustu metrana á lokasprettinum verður við að fjalla meira um karlmennskuímyndir,“ segir Katrin Sjögren, jafnréttisráðherra Álandseyja. 

Virk þátttaka karla og drengja í jafnréttisstarfi gengur eins og rauður þráður gegnum núverandi samstarfsáætlun Norðurlanda í jafnréttismálum 2015–2018. Unnið er að nýrri áætlun sem tekur gildi 1. janúar 2019. Á fundinum í Stokkhólmi samþykktu ráðherrarnir að karlar og jafnrétti, karlmennskuímyndir og virk þátttaka stráka og karla í jafnréttisstarfi yrðu meginþemu nýrrar samstarfsáætlunar. Umræddar þrjár stoðir geta náð yfir mál sem varða vinnumarkað og hagvöxt, velferð, heilsu og lífsgæði, völd og áhrif.