Sameiginleg ábyrgð á flóttabörnum

03.11.16 | Fréttir
Annette Lind
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Norrænu löndin standa frammi fyrir nýjum og umfangsmiklum áskorunum varðandi aðlögun mikils fjölda nýs flóttafólks. Flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði leggur því til að einkareknir grunnskólar leggi sitt af mörkum til aðlögunar flóttabarna.

„Okkur er ofarlega í huga að öll börn sem hingað koma fái góðar móttökur frá byrjun og pláss í góðum skólum. Aðlögun er verkefni sem takast þarf á við á breiðum grundvelli og því viljum við að einkareknir skólar leggi líka sitt af mörkum til aðlögunar hins mikla fjölda flóttabarna sem hingað kemur,“ sagði Annette Lind þegar hún lagði tillöguna fram.

Í Danmörku eru 16 prósent barna á grunnskólaaldri í einkareknum skólum, sem taka við 5,2 milljörðum da.kr. í ríkisstyrki á árinu 2016. Í Svíþjóð eru einnig fjölmargir einkareknir skólar.

Jafnaðarmennirnir í Norðurlandaráði telja einnig mikilvægt að löndin læri af reynslu hvert annars á þessu sviði og mæla með því að Norræn ráðherranefndin efni til norrænnar ráðstefnu með áherslu á aðlögun hælisleitandi barna og góðar starfsvenjur fyrir árangursríka aðlögun.

„Löndin hafa valið ólíkar lausnir í þessum efnum og skólakerfi okkar eru einnig mismunandi. En það er mikilvægt að við eigum samstarf um málefni flóttafólks og aðlögunar. Við teljum því að nú sé gott og nauðsynlegt að koma á sameiginlegum fundarstað þar sem við getum lært hvert af öðru, og þar sem þeir geta einnig tekið þátt sem starfa á þessu sviði,“ sagði Norunn Tveiten Benestad í flokkahópi hægrimanna, sem studdi tillöguna.

Þingmenn Norðurlandaráðs greiddu atkvæði með tillögunni, sem verður nú send áfram til norrænu ríkisstjórnanna.

Contact information