Sameiginleg norræn framtíð með gervigreind

30.08.24 | Fréttir
Karen Ellemann
Ljósmyndari
Josefine Heimburger / Norden.org
Við erum stödd í miðri stafrænni byltingu. Íbúar Norðurlanda eru 28 milljónir og ef Eystrasaltslöndin eru talin með erum við 35 milljónir sem gerir okkur að tíunda stærsta hagkerfi í heimi. Við höfum einstakt tækifæri til að móta framtíðina með tilliti til gervigreindar, skrifar framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Karen Ellemann.

Árangur okkar á að felast í því að við gerum þetta þannig að það komi ekki aðeins okkar eigin samfélögum til góða heldur stuðli einnig að því að setja viðmið á heimsvísu. Þróun gervigreindar er hröð og hefur áhrif á margar atvinnugreinar. Það skiptir sköpum að við, sem svæði þar sem lýðræðisleg gildi eru í hávegum höfð og traust til stofnana er mikið, tökum okkur forystuhlutverk í þeirri þróun.

Einstakt tækifæri

Svæðið hefur lengi verið þekkt fyrir að vera í fararbroddi í stafrænni nýsköpun. Við erum með þróttmikið tæknihagkerfi, rannsóknir á heimsmælikvarða á sviði gervigreindar og hátt menntunarstig meðal almennings. Markviss nýsköpun þar sem fólk, lýðræðisleg gildi og samfélagsleg ábyrgð er í fyrirrúmi hefur einkennt svæðið. Þetta gefur okkur ekki aðeins tækifæri til þess að vera í forystuhlutverki við þróun ábyrgrar gervigreindar heldur er það skylda okkar.

Fyrir innan við ári undirrituðu norrænu forsætisráðherrarnir yfirlýsingu um stafrænan viðnámsþrótt á Norðurlöndum. Í yfirlýsingunni er það undirstrikað að sameiginleg gildi okkar og vel stafvædd samfélög setji okkur í einstaka stöðu til að takast á við bæði þær áskoranir og tækifæri sem gervigreindinni fylgja. Samstarf þvert á landamæri og svæði skiptir í þessu samhengi sköpum. Fyrstu skrefin hafa þegar verið tekin með tilraunaverkefni um New Nordics gervigreindarmiðstöð sem byggist á tillögum frá Nordic Ethical AI Expert Group.

Þótt gervigreindin bjóði upp á gríðarmikil tækifæri fylgja henni jafnframt nokkrar áskoranir, svo sem varðandi aðgengi að hæfu starfsfólki. Við finnum nú þegar fyrir skorti á sérfræðingum á sviði gervigreindar og þörfin á sérþekkingu á sviði gagna er meiri en nokkru sinni. Aðlaga þarf menntakerfið að þessu svo það geti mætt þessari þörf á sama tíma og við verðum að tryggja fjölbreytileika innan atvinnugreina sem tengjast gervigreind, bæði hvað varðar kyn, uppruna og bakgrunn.

Gögn eru annar þýðingarmikill þáttur. Bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum höfum við vönduð gagnasöfn en tæknileg og réttarfræðileg atriði koma í veg fyrir skilvirka miðlun og notkun gagna þvert á landamæri. Til þess að gervigreindarlausnir geti vaxið og við getum nýtt okkur til fulls möguleikana sem í þeim felast verðum við að efla samstarfið um örugga miðlun gagna og tryggja sjálfbæra innviði fyrir gervigreind sem styðja við nýsköpun án þess að grafa undan hinum metnaðarfullu markmiðum okkar í loftslagsmálum.

Í nýrri löggjöf ESB um gervigreind eru nú þegar gerðar stífar kröfur um regluverk. Því er mikilvægt að á Norðurlöndum fari innleiðingin fram með samræmdum hætti um leið og við verðum að forðast að regluverkið hamli nýsköpun. Gervigreind getur aðeins borið árangur ef hún er ábyrg og gagnsæ og það þýðir að sterk og lýðræðisleg umgjörð verður að vera til staðar.

Sameiginleg framtíðarsýn fyrir árið 2030

Við köllum eftir norrænni framtíðarsýn um gervigreind fyrir árið 2030 þar sem svæðið verði í fararbroddi í heiminum við að innleiða gervigreind á stórum skala til hagsbóta fyrir bæði almenning og atvinnulífið. Við viljum vera best í því að nýta gervigreind með ábyrgum hætti til að styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækja okkar, bæta opinbera þjónustu, finna nýjar vísindalegar lausnir, flýta fyrir grænum umskiptum og halda upp netöryggi og viðnámsþrótti í hinum lýðræðislegu samfélögum okkar.

Tillaga um slíka framtíðarsýn var rædd föstudaginn 30. ágúst þegar hátt settir ráðamenn úr bæði einka- og opinbera geiranum hittu ráðherra frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum í Kaupmannahöfn. Hvað kemur út úr því á eftir að koma í ljós en hvað sem því líður er Norræna ráðherranefndin stolt af því að geta haft milligöngu um náið samstarf þvert á atvinnugreinar og landamæri. Við þurfum að styðja við nýsköpun, tryggja aðgang að hæfu vinnuafli og þróa innviði fyrir gervigreind sem eru bæði skilvirkir og sjálfbærir. Þetta er gríðarstórt úrlausnarefni en jafnframt felst í því einstakt tækifæri fyrir okkur sem svæði til að taka okkur forystuhlutverk í hinni alþjóðlegu gervigreindarbyltingu.

Sýnum ábyrgð og tryggjum að Norðurlönd og Eystrasaltssvæðið verði fyrir fyrirmyndir annarra þegar kemur að því að þróa og nota gervigreind þannig að það megi verða bæði samfélaginu og mannkyninu til góða. Saman getum við mótað framtíðina.