Samstarfsáðherrarnir beita sér gegn landamæraeftirliti

28.01.16 | Fréttir
Anne Berner
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Samstarfsráðherrar Norðurlanda beita sér nú fyrir því að landamæraeftirliti verði hætt á Norðurlöndum. Það staðfesti Anne Berner, samstarfsráðherra Norðurlanda í Finnlandi, í tengslum við ráðstefnu í borginni Turku.

Ráðstefnan „Hvernig líður Norðurlöndum?“, sem haldin var dagana 27. og 28. janúar, markaði upphaf formennskuárs Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni. Þema ráðstefnunnar var sjálfbærni með hjálp velferðar, menningar og jafnréttis, en jafnframt var rætt um flóttamannamál og landamæraeftirlitið milli Svíþjóðar og Danmerkur.

Anne Berner, sem var einn ræðumanna á ráðstefnunni, fullvissaði fundarmenn um að samstarfsráðherrar Norðurlanda væru að beita sér fyrir því á ýmsum vettvangi að landamæraeftirliti verði hætt. Meðal annars vilja þeir að forsætisráðherrar Norðurlanda fundi og lýsi skýrum stuðningi við frjálsa för.

„Við þurfum að halda í frjálsa för á Norðurlöndum og norrænu gildin. Við höfum alltaf aðstoðað og stutt hvert annað og við getum ekki farið að takast á núna.“

Anne Berner sagði einnig vilja að samstarf norrænna ráðherra verði gert sveigjanlegra þannig að þeir geti í sameiningu brugðist skjótar við því sem gerist í umhverfi okkar.

„Við þurfum nútímalegra skipulag á stjórnun norræns samstarf þannig að við getum brugðist skjótar við í stað þess að ólík viðbrögð komi frá hverju norrænu landanna áður en við náum að taka höndum saman.“

Við þurfum að halda í frjálsa för á Norðurlöndum og norrænu gildin. Við höfum alltaf aðstoðað og stutt hvert annað og við getum ekki farið að takast á núna.

Sameiginleg stefna Norðurlanda?

Hvað varðar sameiginlegu stefnu Norðurlanda í flóttamannamálum segist Anne Berner sjá tvo möguleika. Í fyrsta lagi vill hún að Norðurlönd móti sameiginlegu stefnu í flóttamannamálum gagnvart Evrópusambandinu og um það að efla eftirlit á ytri landamærum ESB í stað þess að koma á landamæraeftirliti innan ESB.

„Í öðru lagi þurfum við að líta á hvernig við getum í sameiningu mótað samþættingarstefnu sem stuðlar að skjótri samþættingu, að við hættum að tala um flóttamannavanda og ræðum í staðinn um samþættingu innflytjenda, og síðan um nýtt vinnuafl og nýja íbúa.“  

Tuomas Martikaine, yfirmaður finnskrar rannsóknarstofnunar um fólksflutninga (Migrationsinstitutet, Siirtolaisuusinstituutti), ræddi einnig um flóttamannamálin. Hann sagði meðal annars að útlendingahatur hefði kannski ekki aukist á Norðurlöndum, en að það hefði orðið sýnilegra og væri síður litið hornauga. Martikainen sagði að það gerði stöðuna enn erfiðari nú að margir væru að leita að blórabögglum og sökudólgum vegna vandamála sem þeir upplifðu í þjóðfélaginu, til dæmis slæms efnahagsástands.

„Nú hafa flóttamennirnir fengið það hlutverk,“ sagði Martikainen.

Hér er viðtalið við Anne Berner í heild.