Sjálfbært lýðræði á Norðurlöndum verður þema alþjóðlegrar ráðstefnu

03.12.21 | Fréttir
Nordiska flaggor
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/Norden.org
Þema alþjóðlegrar ráðstefnu, sem haldin verður í danska þinginu í Kaupmannahöfn þann 8. desember, verður samstarf norrænu landanna ásamt Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum sem dæmi um sjálfbært lýðræði.

Markmiðið með ráðstefnunni er að kynna þau öflugu lýðræðiskerfi sem einkenna norrænu löndin og einnig að sýna hvernig þátttaka Færeyja, Grænlands og Álandseyja í norrænu samstarfi eflir sjálfbært lýðræði á Norðurlöndum.

Ráðstefnan er ætluð diplómötum, stjórnmálamönnum og alþjóðlegum samtökum jafnt innan sem utan Norðurlanda.

Þema ráðstefnunnar rímar vel við framtíðarsýn forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Umræður um það til dæmis hvernig Færeyjar, Grænland og Álandseyjar geta verið dæmi um og jafnvel fordæmi fyrir félagslegri og umhverfislegri sjálfbærni eiga afar vel við í ljósi markmiða framtíðarsýnarinnar.

Á meðal ræðumanna á ráðstefnunni verða Tarja Halonen sem var fyrsti kvenforseti Finnlands, Ilze Brands Kehris, starfandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum, Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs, ráðherrar, þ. á m. nokkrir af norrænu samstarfsráðherrunum, fræðimenn, embættismenn og Gunnar Wetterberg, sagnfræðingur og rithöfundur frá Svíþjóð.

Það er utanríkisstofnunin í Finnlandi sem haldu ráðstefnuna fyrir hönd Finnlands sem formennskulands í Norrænu ráðherranefndinni 2021 sem heldur ráðstefnuna í samstarfi við Álandseyjar og Norrænu ráðherranefndina. Thomas Blomqvist og Annette Holmberg-Jansson, samstarfsráðherrar Norðurlanda í Finnlandi og á Álandseyjum, munu setja ráðstefnuna.

Þann 7. desember gefur utanríkisstofnunin í Finnlandi í samstarfi við friðarstofnunina á Álandseyjum út rannsóknarskýrslu í tengslum við ráðstefnuna. Katja Creutz, verkefnisstjóri hjá utanríkisstofnuninni í Finnlandi, ber höfuðábyrgð á ráðstefnunni. Hlekkur á rannsóknarskýrsluna verður birtur þegar hún kemur úr.

Ráðstefnan fer fram kl. 12.30–16.30 (CET) og verður í beinu netstreymi (hlekkur fyrir neðan).

Tengiliður