Skammlisti fyrir næsta norræna menningarviðburð

Ráðherrarnir óskuðu eftir tillögum að staðarvali frá norrænum sendiráðum erlendis í nóvember 2018 og hafa viðbrögðin verið vonum framar, sem ber vitni hinum miklu sóknarfærum sem nú eru í alþjóðlegu samstarfi á sviði norrænnar menningar og lista. Næsti menningarviðburður mun fylgja í fótspor vel heppnaðra viðburða á borð við Nordic Cool í Washingtonborg árið 2013 og Nordic Matters í Lundúnum 2017.
23 tillögur úr öllum heimshornum
Viðbrögð sendiráða við ákalli ráðherranna hafa verið vonum framar, en alls bárust 23 tillögur að nýjum hugmyndum, mótsstöðum og gestgjafaborgum úr öllum heimshornum*. Norræna embættismannanefndin um menningarmál hefur nú valið þessar átta spennandi hugmyndir á skammlista fyrir hönd ráðherranna:
- Addis Ababa, Eþíópíu
- Brussel, Belgíu
- Búenos Aíres, Argentínu
- París, Frakklandi
- Róm, Ítalíu
- São Paulo, Brasilíu
- Tókýó, Japan
- Torontó, Halifax, Vancouver og Iqaluit, Kanada
Litið var til eftirfarandi þátta þegar valið var úr umsóknum: samspils norrænnar menningar við staðinn, norræns inntaks og boðskaps, svæðisbundins stuðnings við verkefnið, alþjóðlegs viðhorfs og mögulegs áhuga frá aðilum í norræna lista- og menningargeiranum.
Lokaákvörðun verður tekin vorið 2019.
Höfundum tillaganna átta gefst nú færi á að skerpa enn frekar á hugmyndum sínum og betrumbæta tillögurnar áður en þær verða metnar af fulltrúum lista- og menningargreina. Því næst munu menningarmálaráðherrarnir kynna vettvang næsta umfangsmikla norræna menningarviðburðar.
Ráðherrarnir reikna með því að kynna einn eða fleiri vinningshafa á fundi sínum á Íslandi í maí 2019. Viðburðurinn verður haldinn eigi síður en árið 2021 og Norræna ráðherranefndin hefur eyrnamerkt 5 milljónir danskra króna verkefninu.
*Svona dreifðust tillögurnar eftir heimsálfum: 3 frá Afríku, 3 frá Asíu, 11 frá Evrópu, 3 frá rómönsku Ameríku og 3 frá Norður-Ameríku.