Menningarmálaráðherrarnir veðja á heiminn aftur

01.11.18 | Fréttir
Nordisk ministerråd for kultur (MR-K)

Norræna ráðherranefndin um menningarmál (MR-K) að loknum fundi í Stórþinginu miðvikudaginn 31.10.

Photographer
Sara Johannessen / norden.org
Eftir mikla alþjóðlega velgengni Nordic Cool í Washington og Nordic Matters í Lundúnum hafa norrænu menningarmálaráðherrarnir ákveðið að efna aftur til alþjóðlegs menningarátaks á einhverjum stað í heiminum sem enn hefur ekki verið valinn. Ákvörðun um þetta var tekin á ráðherrafundinum í Ósló á miðvikudaginn.

Ráðherrarnir líta svo á að árangur fyrri menningarhátíðanna tveggja hafi verið langt umfram væntingar.

„Þær hafa borið alveg magnaðan ávöxt, bæði með mikilli alþjóðlegri athygli, auknum menningarskiptum og auknum möguleikum norrænna listamanna, segir Alice Bah Kuhnke, menningar- og lýðræðisráðherra Svíþjóðar.

Athygli á Norðurlönd

Alice Bah Kuhnke bendir á að átakið hafi verið afar ólíkt á þeim tveimur hátíðum sem efnt hefur verið til. Nordic Cool (2013) var hátíð sem stóð í heilan mánuð og meira en 700 norrænir myndlistamenn, hönnuðir, tónlistar- og sviðslistamenn komu til Washington D.C. og vöktu gríðarlega athygli á norrænni menningu.

Nordic Matters á Southbank Center í Lundúnum stóð allt árið 2017 og fól fyrst og fremst í sér mikinn fjölda nýrra listrænna samfunda, samstarfa og verkefna. Norræn list, menning og samfélagsumræða lagði grunninn að röð hátíða og listrænna verkefna sem einnig beindu sjónum að spurningum sem snéru að sjálfbærni, jafnrétti og sjónarhorni barna og ungmenna. 

Nýr staður - nýr grunnur

Norrænu menningarmálaráðherrarnir leita nú að enn einum hugmyndagrunni fyrir samspil norrænnar menningar við umheiminn vegna þriðja samnorræna átaksins, og að þeim stað sem það verður haldið.

Þetta getur verið enn ein stórborgin eða svæði sem hefur gildi fyrir Norðurlönd. Meginmáli skiptir að verkefnið hafi bæði tenginu við staðinn þar sem átakið verður haldið, alþjóðlega vídd og sé áhugavert fyrir norræna listamenn og aðra fulltrúa menningarlífsins. Um miðjan nóvember verður norrænum sendiráðum utan Norðurlanda boðið að leggja fram sína bestu tillögu. 

Besta hugmyndin valin á næsta ári

Unnið verður að vali á hugmyndagrunni fyrir næsta alþjóðlega menningarátakið í vetur og vor. Búist er við að menningarmálaráðherarnir taki lokaákvörðun vorið 2019.

„Kannski er meiri þörf á menningu sem alþjóðlegan fundarstað nú en nokkru sinni fyrr. Við viljum bjóða til vettvangs fyrir samtal og viðbrögð við samtímanum. Það getur skapað nýtt samhengi og tengsl milli listamanna á Norðurlöndum og í heiminum öllum sem ber ávöxt til framtíðar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og menntamálaráðherra Íslands.