Stjórnvöld veita Stjórnsýsluhindranaráði aukið umboð

31.10.17 | Fréttir
Frank Bakke-Jensen
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Það verður að vera enn auðveldara fyrir fólk og fyrirtæki að koma sér fyrir hvar sem er á Norðurlöndum að mati norrænu samstarfsráðherranna. Í dag veittu þeir Stjórnsýsluhindranaráðinu aukið umboð sem á að þrýsta á um pólitískar lausnir varðandi stjórnsýsluhindranir.

- Þetta er einn af mörgum þáttum vinnunnar við að raungera framtíðarsýn forsætisráðherranna - að Norðurlöndin verði samþættasta svæði heims, sagði Frank Bakke-Jensen, samstarfsráðherra Norðurlanda í Noregi, strax að lokinni ákvörðun samstarfsráðherranna í Helsinki í dag. 

Tækifærið sem felst í því að öll Norðurlönd séu eitt starfs-, náms- og búsetusvæði er sá þáttur norænnar samvinnu sem skiptir mestu máli að mati nærri helmings aðspurðra í nýrri skoðanakönnun. 

Enn takmarkast þessir möguleikar þó af reglum einstakra landa sem vinna hverjar gegn öðrum og valda vandræðum. Fólk fær ekki atvinnuleysisbætur þegar það þarf á þeim að halda, það á ekki rétt á starfsnámi eða ferðaþjónustu í landinu sem það er flutt til.

Þrýst á lausnir

- Fækka verður hindrunum og draga úr skorti á upplýsingum sem á mismunandi hátt torvelda það að flytja, stunda vinnu, læra eða reka fyrirtæki þvert á landamæri Norðurlandanna. Við munum vinna ákveðið að þessu í Stjórnsýsluhindranaráðinu, segir Margot Wallström,  utanríkisráðherra en hún er er ábyrg fyrir norrænu samstarfi í Svíþjóð sem tekur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um næstu áramót.

Undanfarin fjögur ár hefur Stjórnsýsluhindranaráðið sinnt því verkefni fyrir hönd stjórnvalda á Norðurlöndum að vinna gegn stjórnsýsluhindrunum sem hamla störfum og hagvexti á Norðurlöndum. Ráðið greinir hvaða stjórnsýsluhindranir skipta mestu máli og reyna svo að vinna að úrlausnum hjá þeim ráðuneytum sem við á.

33 stjórnsýsluhindranir afgreiddar

Á tímabilinu frá 1. janúar 2014 til 31. ágúst 2017 hefur Stjórnsýsluhindranaráðið afgreitt 33 stjórnsýsluhindranir. Þar af leystust 24 stjórnsýsluhindranir en 9 voru afskrifaðar sem óleysanlegar. Þetta hefur meðal annars leitt til aukins hreyfanleika sænskra vélsleðaökumanna, ungra íslenskra atvinnuleitenda, háskólamenntaðra Grænlendinga og til einföldunar á  innflutningi vinnuvéla til Noregs.

Aukinn pólitískur þungi

Nú fær Stjórnsýsluhindranaráðið nýtt og sterkara umboð til þess að geta ýtt á stjórnvöld með auknum pólitískum þunga. Það er skýrt að Stjórnsýsluhindranaráðið á að stuðla að því að raungera þá framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna að Norðurlönd verðir „best samþætta svæði heims“.

Meðal annars fá fulltrúar þjóðanna fá nú aukið rými til að sinna störfum sínum og hafa til dæmis heimild til að kalla til fundar viðeigandi ráðherra, aðila vinnumarkaðarins og aðra aðila sem geta átt þátt í að draga úr stjórnsýsluhindrunum. Í erindisbréfi nefndarinnar stendur að fulltrúar í Stjórnsýsluhindranaráðinu eigi að hafa mikið net innan stjórnsýslu lands síns, bæði meðal ráðherra og hátt settra embættismanna.

Afnema á fleiri og mikilvægari hindranir

- Ég lít á þetta sem viðurkenningu á því verki sem við höfum unnið í Stjórnsýsluhindranaráðinu undanfarin fjögur ár og það er auðvitað mjög jákvætt að umboð okkar skuli nú verða enn afdráttarlausara, segir Svein Ludvigsen, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins á árinu 2017.

Kröfurnar aukast þannig að Stjórnsýsluhindranaráðið á nú að ná því fram að stjórnvöld afgreiði 8 til 12 stjórnsýsluhindranir á ári (var áður milli 5 og 10). Ráðið á að forgangsraða þeim hindrunum sem skipta mestu máli fyrir frjálsa för.

Það er einnig nýmæli að nú á leitast eftir því að jafnmargar konur og karlar sitji í ráðinu.

Samþættasta svæðið

Á sama tíma hafa samstarfsráðherrarnir falið Dagfinn Høybråten framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar að leggja fram aðgerðaáætlun um hvernig hægt sé að framkvæma framtíðarsýnina um að Norðurlönd verði best samþætta svæði heims. 

-  Þetta er til marks um að litið er á vinnu Stjórnsýsluhindranaráðsins í stærra og um leið sameiginlegu samhengi, segir Dagfinn Høybråten.

 Um 65.000 norrænir ríkisborgarar eiga heima í einu norrænu ríki og starfa í öðru. Fólkið sem ferðast yfir landamæri Norðurlanda til vinnu leggur 5,3 milljarða evra til norræna hagkerfisins og sparar um leið milljarða í atvinnuleysisbótum. 

Contact information