Svona verður jafnrétti tryggt í grænum umskiptum á Norðurlöndum

16.03.22 | Fréttir
fem ministrar undertecknar överenskommelse
Photographer
Pontus Höök
Hver er munurinn á milli kynjanna þegar kemur að losun á Norðurlöndum? Hver eru áhrif hinna grænu umskipta á jafnrétti á vinnumarkaði? Sem stendur skortir þekkingu til að svara þessum spurningum – og þar með til að leysa loftslagsvandann svo vel sé, að mati norrænu jafnréttisráðherranna. Þeir gengust í gær undir sameiginlegar skuldbindingar um græn Norðurlönd þar sem jafnrétti ríkir.

Ráðherrar jafnréttismála á Norðurlöndum eru staddir í New York þar sem þeir sækja fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna, CSW66.

Á miðvikudag stóðu þeir fyrir umræðum undir yfirskriftinni „From Gender-Blind to Gender-Just: Time to Commit to the Nordic Climate Leadership“.

Kynjablind loftslagsstefna

Ráðherrarnir reyndu þar að skýra hvers vegna loftslagsstefnan hefur til þessa að mestu leyti verið kynjablind á Norðurlöndum. 

„Norrænu löndin hafa náð langt með tilliti til jafnréttis og jafnréttissjónarmið eru ríkjandi í flestum málaflokkum. Þegar kemur að loftslagsstefnunni er þó svigrúm til að gera betur. Hingað til höfum við ekki lagt nægilega áherslu á tengslin á milli kyns og loftslagsbreytinga,“ segir Anette Trettebergstuen, jafnréttisráðherra í Noregi og fundarstýra norræna ráðherrapallborðsins á fundinum.

Stýra kynjahlutverk losun og lífsstíl?

Ráðherrarnir gengust undir skuldbindingu um að þróa skuli jafnt þekkingu sem aðgerðir. Meðal annars ætla Norðurlönd að afla gagna um muninn á koldíoxíðlosun karla og kvenna.

Eigi löndin að geta þróað stefnu sem ýtir undir loftslagsvænan lífsstíl þurfa þau aukna þekkingu á muninum á neyslumynstri karla og kvenna og um vilja karla og kvenna til að breyta venjum sínum loftslagsins vegna, til dæmis í tengslum við matarvenjur og samgöngur.   

Bilið á vinnumarkaðnum má ekki stækka

Stóran hluta losunar á Norðurlöndum má rekja til greina þar sem konur eru í minnihluta. Þess vegna er þörf á auknu átaki til að fá fleiri konur til að mennta sig í tækni- og raunvísindagreinum.

Einnig vilja jafnréttisráðherrarnir fullvissa sig um að græn umskipti í orku-, samgöngu-, byggingar- og matvælaiðnaði stækki ekki kynjabilið á vinnumarkaði enn frekar.

Of fáar konur koma að loftslagsviðræðum

Norrænu löndin skuldbinda sig jafnframt til þess að tryggja áhrif kvenna á öllum stigum umskipta vegna loftslagsmála, allt frá alþjóðlegum viðræðum til innlendra stjórnmála.

Í skuldbindingu ráðherranna er fjallað um norðurslóðir þar sem loftslagsbreytingar stuðla að því að hefðbundnar leiðir til lífsviðurværis hverfa og nýjar atvinnugreinar koma í þeirra stað með ólíkum afleiðingum fyrir karla og konur.

Mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum munu einnig hafa ólík áhrif á karla og konur að sögn Naaju H. Nathanielsen, ráðherra auðlinda, fjármála og jafnréttismála á Grænlandi:

Loftslagsvandinn breikkar kynjabilið á norðurslóðum

„Loftslagsvandinn breikkar bilið á milli karla og kvenna á Grænlandi. Hann hefur áhrif á bæði kynin en með ólíkum hætti. Á Grænlandi hefur hann meiri áhrif á lífsafkomu karla en kvenna. Konur koma ekki að þegar ákvarðanir um framtíðina eru teknar,“ segir Naaja H. Nathanielsen og heldur áfram:

 

„Þess vegna verða bæði karlar og konur að koma að öllum aðgerðum sem miða að því að vinna gegn loftslagsvandanum og finna nýja lausnir. Við þurfum þekkingu frá öllum til að geta leyst vandann.“

„Við gerum ráð fyrir Norðurlöndum“

Jafnréttisráðherrarnir afhentu Sima Bahous, framkvæmdastýru UN Women, skuldbindinguna.

Sima Bahous hvatti norrænu löndin til að fjárfesta í kynjuðum lausnum á loftslagsvandanum, rétt eins og þau fjárfestu eitt sinn í leikskólum, foreldraorlofi og jöfnum réttindum á vinnumarkaði.

„Við gerum ráð fyrir fullum stuðningi ykkar til að hjálpa til við að móta loftslagsaðgerðir í þágu jafnréttis. Ég hvet bæði opinbera geirann og einkageirann til að auka fjárfestingar í kynjuðum jafnréttislausnum,“ segir Sima Bahous.

Jafnréttisráðherrarnir halda nú heim til að tryggja staðfestingu og áframhaldandi vinnu við skuldibindinguna.