Það besta frá Norðurlöndum í Stokkhólmi

25.10.19 | Fréttir
Nordiska rådets filmpris 2019
Ljósmyndari
norden.org
Bókmenntir, kvikmyndir, tónlist og sjálfbærni eru á dagskrá þegar hin árlega hátíð Best of Norden hefst á sunnudaginn í Filmhuset í Stokkhólmi. Margir hinna tilnefndu til verðlauna Norðurlandaráðs taka þátt í rithöfundasamtölum, tónlist, upplestrum og einstökum kvikmyndasýningum. Á sama tíma verður norræn kvikmyndahelgi annars staðar á Norðurlöndum.

Þetta er fimmta árið í röð sem staðið er fyrir hátíðinni Best of Norden þar sem á tveimur stjörnum prýddum dögum gefst tækifæri meðal annars til þess að hitta norræna rithöfunda, hljómsveitarstjóra og leikstjóra og verða fróðari um norræna menningu og tungumál og einnig hitta norræna umhverfisfrumkvöðla með nýja og öðruvísi hugsun.

Dæmi um dagskráratriði:

 • Að vinna úr áfalli: samtal þar sem leikstjórinn Carl Javér, sem tilnefndur er til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, er meðal þátttakenda.
 • Rithöfundasamtal: Menningarblaðamaðurinn Gunilla Kindstrand og Tore Leifer frá Danmarks Radio ræða við nokkra þeirra rithöfunda sem tilnefndir eru til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.
 • Bókmenntameðferð – bókmenntir til þess að skilja lífið: Louise Hertzberg ræðir við meðferðaraðilann Piu Bergström, blaðamanninn og rithöfundinn Eric Rosén og rithöfundinn Jan Grue sem tilnefndur er til bókmenntaverðlaunanna.
 • Bókmenntasamtal: Menningarblaðamaðurinn Gunilla Kindstrand og Tore Leifer frá Danmarks Radio ræða við nokkra þeirra rithöfunda sem tilnefndir eru til bókmenntaverðlaunanna 2019 og munu þeir einnig lesa úr verkum sínum.
 • Tónleikar og samtal: Gunilla Kindstrand og Camilla Lundberg ræða við nokkra þeirra sem tilnefndir eru til tónlistarverðlaunanna og einnig verður tónlist á dagskrá.
 • Kvikmyndasamtal: Jan Göransson frá Svenska filminstitutet ræðir við nokkra þeirra sem tilnefndir eru til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs.
 • Umhverfissamtal: hin tilnefndu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs er fólk með nýja og öðruvísi hugsun. Hvernig geta þau virkjað almenning með sér?
 • Allar tilnefndu kvikmyndirnar fimm Dronningen frá Danmörku, Aurora frá Finnlandi, Hvítur, hvítur dagur frá Íslandi, Blindsone frá Noregi og hin sænska Rekonstruktion Utøya verða sýndar og verða einstakar samræður fyrir hverja sýningu.

Norræn kvikmyndahelgi

Tilnefndu kvikmyndirnar fimm eru sýndar í haust á eftirtöldum viðburðum víða um Norðurlönd og var þjófstartað fyrr í mánuðinum í Helsinki á Love & Anarchy og í Bíó Paradís í Reykjavík en nú er röðin komin að Stokkhólmi, Ósló og Kaupmannahöfn.

 • Cinemateket, Ósló, 25.–27. október
 • Grand Teatret, Kaupmannahöfn, 27. október
 • Best of Norden, Stokkhólmi, 27.- 28. október

Bein útsending frá tónlistarhúsi Stokkhólms 29. október

Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í tónlistarhúsi Stokkhólms þann 29. október og verður verðlaunahátíðin send út beint undir stjórn þáttastjórnandans Jessiku Gedin. Verðlaunahafarnir taka við verðlaununum úr hendi Stefán Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Nouru Berrouba, aðgerðarsinna á sviði umhverfismála, Johannesar Anyuru rithöfundar, Lenu Ceciliu Sparrok leikkonu og Susönnu Mälkki, hljómsveitarstjóra og fyrrum verðlaunahafa.