Þörf á auknu samstarfi í atvinnulífi norðurslóða

23.01.18 | Fréttir
Træhus i landskab på Island
Ljósmyndari
Yadid Levy / Norden.org
Stórefla þarf samstarf yfir landamæri milli aðila atvinnulífsins og landsvæða ef takast á að þróa fyrirtækjarekstur á norðurslóðum. Þetta eru niðurstöður skýrslu sem Norræna ráðherranefndin fjármagnaði.

Skýrslan Arctic Business Analysis sýnir að þörf er á að þróa og efla framtakssemi á norðurslóðum. Auk þess er ástæða er til að kynna viðskiptatækifæri á norðurskautssvæðinu og sýna aðdráttarafl þess sem sjálfbærs markaðar fyrir fjárfestingar og efnahagsþróun.

„Norðurslóðir bjóða upp á ýmis sóknarfæri fyrir verktaka og fyrirtæki í ýmsum geirum, þar á meðal í lífhagkerfinu og skapandi og menningarlegum atvinnugreinum. Skýrslan er grundvöllur sem norðurslóðir geta nýtt til að ná þrepi ofar í þróun atvinnulífsins,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Vettvangur lysthafenda

Greiningunni er ætlað að aðstoða einstaklinga, fyrirtæki og fjárfesta sem hafa áhuga á að hasla sér völl á norðurslóðum. Þar er boðið upp á sameiginlegan vettvang fyrir ný verkefni á sviði sjálfbærrar efnahagsþróunar og hagvaxtar á norðurskautssvæðinu og stuðningur veittur verkefnum sem fyrir eru.

Skýrslan skiptist í fjögur svið: Frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun, samstarf opinberra aðila og einkaaðila, menningarlegar og skapandi atvinnugreinar og lífhagkerfið.

Skýrslan er á ensku og unnin í samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar og Efnahagsráðs norðurslóða. Hún er birt í tilefni ráðstefnu sem fram fer í Tromsö 23. janúar 2018.